Gram Parsons er einhver dularfyllsta persónan í rokksögunni. Hann er þekktur og dáður af mörgum, en það verður seint sagt að nafn hans hafi verið á hvers manns vörum. Áhuginn á honum er þó alltaf lifandi, það er ekki bara vegna þess að hann dó alltof ungur á hörmulegan hátt, heldur líka vegna þess að framlag hans til rokktónlistarinnar þykir ansi merkilegt.
Parsons hét réttu nafni Ingram Cecil Connor III. Hann var kominn af efnafóki, ólst upp í suðurríkjum Bandaríkjanna, og gekk um skeið í Harvardháskóla. Pabbi hans hafði verið flugmaður í stríðinu og fengið medalíur fyrir en móðir hans var dóttir ríks sítrónubónda. Þau voru bæði alkóhólistar, móðirin fyrirfór sér árið 1958, þegar drengurinn sem síðar tók upp nafnið Gram Parsons var 12 ára.
Í suðrinu heyrði Parsons mikið af þjóðlegri tónlist sem átti eftir að hafa mikil áhrif á hann. Hann sá Elvis Presley á sviði 1957 og fór að spila í hljómsveitum, hann söng, lék á gítar og píanó.
Parsons varð frægur þegar honum var boðið að ganga í hljómsveitina The Byrds árið 1968. David Crosby hafi þá yfirgefið sveitina og hún var að leita í nýjar áttir. Parsons kom með áhrif úr kántrímúsík og úr varð hin sögulega plata Sweetheart of the Rodeo, þar sem rokki og kántrí var blandað saman. Þessi blanda átti eftir að verða býsna áhrifarík.
En Parsons var ekki lengi í Byrds – hann hætti í sveitinni þegar hún var á ferðalagi í London, en þar hafði hann kynnst meðlimum Rolling Stones, einkum Keith Richards. Þeir áttu eftir að verða miklir vinir. Stuttu síðar stofnaði Parsons hljómsveitina The Flying Burrito Brothers með Chris Hillman, fyrrum meðlimi The Byrds. Fyrri plata hjómsveitarinnar, The Guilded Palace of Sin, þykir mjög merk, þar halda þeir Parsons og Hillman áfram að þróa kántrírokkið, en vinsældirnar voru ekkert sérlega miklar. Parsons notaði óspart áfengi og fíkniefni og sveitin líðaðist í sundur. Hillman sagðist seinna hafa verið orðinn þreyttur á að vera barnfóstra fyrir Parsons.
The Flying Burrito Brothers spiluðu með Rolling Stones á frægum tónleikum á Altamont hraðbrautinni – á seinni plötu þeirra var frumflutt Stoneslagið Wild Horses sem birtist síðan á Sticky Fingers plötu Rollinganna. Útgáfa Parsons á því er ekki síðri. Altamont tónleikarnir voru hins vegar skelfilegir, það logaði allt í slagsmálum og einn tónleikagesta var stunginn til bana rétt fyrir framan sviðið. Tónleikarnir hafa stundum verið taldir marka endalok hippatímans.
Parsons var ákaflega upp með sér af vináttunni við Stones og á árunum 1970 til 1772 var hann mikið í kringum hjómsveitina. Hann var fastagestur í húsi Richards í Suður-Frakklandi. Þeir spiluðu saman undir þungum áhrifum fíkniefna, Richards fór að hneigjast mjög í átt til kantrítónlistar á þessum tíma. Stones voru á þessum tíma að vinna að plötunni Exile on Main Street. En ástandið á Parsons var ekki gott, á endanum rak Anita Pallenberg, ástkona Richards, hann burt.
Rokkstjörnulíf: Parsons í villunni hjá Keith Richards í Suður-Frakklandi.
Parsons fór til Bandaríkjanna og tókst að hætta að nota heróín. Hann tók upp samstarf við söngkonuna fögru, Emmylou Harris, á þessum tíma er sagt að hún hafi verið eins konar músa hans. Á þessum tíma gerði hann tvær plötur sem nefnast GP og Grievious Angel. Þær fengu mjög góða dóma en seldust svosem ekki mikið – Parsons þótti of mikill hreinstefnumaður í sínu kántrírokki og gat illa keppt við hin söluvænni hljóm sem The Eagles voru að gera vinsælan. Seinni platan kom út eftir dauða hans.
Parsons lést í október 1973. Þá var hann staddur í smábænum Josuah Tree í Mojave eyðimörkinni í Kaliforníu. Hann hafði farið þangað áður til að leita að innblæstri. Í þetta sinn voru eiturlyf með í för. Sagt er að Parsons hafi ekki tekið heróín í nokkuð langan tíma, þolið gagnvart fíkniefninu hafði minnkað, og skammturinn sem hann tók var svo stór að hann dró tónlistarmanninn til dauða. Parsons hafði sagt að hann vildi að líkamsleifum sínum yrði dreift við Joshua Tree. Vinir hans stálu líkinu frá flugvellinum í Los Angeles og fóru með það þangað í líkbíl sem þeir höfðu fengið lánaðan og kveiktu í. Þeir voru handteknir en fengu ekki nema sekt fyrir. Þarna í eyðimörkinni, nærri Joshua Tree, er nokkuð óformlegt minnismerki um hann.
Gram Parsons hefur orðið mörgum hugstæð persóna. Í nýlegu hefti tímaritsins Rolling Stone er fjallað um áhrifamestu músíkanta í sögu dægurtónlistarinnar, þar er það Keith Richards sem minnist þessa gamla vinar síns.
„I think he was just getting into his stride when he died. His actual output– the number of records he made and sold – was pretty minimal. But his effect on country music is enormous. This is why we are talking about him now. But we can´t know what his full impact would have been. If Buddy Holly hadn´t gotten on that plane or Eddie Cochran hadn´t turned the wrong corner, think of what stuff we could have looked forward to, and be hearing now. It would be phenomenal. In a way, it´s a matter of lost love. Gram was everything you wanted in a singer and a songwriter. He was fun to be around and great to play with as a musician. And that motherfucker could make chicks cry. I have never seen another man who could make hardened old waitresses at the Palomino Club in Los Angeles shed tears the way he did. It was all in the man. I miss him so.“
Hér er gamalt myndband þar sem The Flying Burrito Brothers spila lagið Christine´s Tune.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=BITiY8M_oDo]