Gríski rithöfundurinn Nikos Kazantskis var snillingur, það er ekki spurning að hann hafði snilligáfu.
Hann var óvenjulegur andans jöfur – skrifaði bækur sem eru samdar af miklum innblæstri, frægastar eru skáldsögur eins og Zorba, Frelsið eða dauðinn og Síðasta freisting Krists. Hann samdei einnig sína útgáfu af Odysseifskviðu, stóra bók í bundnu máli, og endurminningabók hans frá Krít sem nefnist Skýrsla til Greco, er frábær lesning um stórbrotnar persónur og mikil örlög. Hann þýddi Dante og Shakespeare á grísku.
Kazantsakis ólst upp á Krít á tímanum þegar Tyrkir réðu eyjunni. Hann sýndi snemma hæfileika til mennta. Fór í skóla á Krít og svo til Naxos. Í einum kafla Skýrslu til Greco (Greco er málarinn El Greco) er því lýst þegar faðir Nikosar, sem var stór persóna eins og títt er um Krítverja, komst næst því að hrósa honum. Þá hafði hann orðið efstur á samkeppnisprófi á Naxos. Faðirinn segir ekki annað en: Þú varðst okkur ekki til skammar.
Kazantsakis var líka heimspekingur sem fór mikið í taugarnar á grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Á endanum var hann grafinn í óvígðri mold. Á legsteininum stendur: Ég vænti einskis. Ég óttast ekkert. Ég er frjáls.
Nú er risin sérkennileg deila um þennan merka höfund sem lést árið 1957. Eigandi höfundarréttarins að verkum hans er Patrolokos Stavrou, málfræðingur frá Kýpur. Bak við það er skrítin saga. Eleni, sem var ekkja Kazantsakis, hitti Stavrou árið 1967. Fimmtán árum síðar ættleiddi hún hann. Þá var hún komin á áttræðisaldur, hann var 55 ára.
Þetta þykir heldur skrítið og reynt hefur verið að hnekkja þessum gerningi fyrir dómstólum en það hefur ekki gengið. Stavrou þykir hafa staðið sig heldur illa í hlutverki sínu, bækur Kazantzakis eru ekki mikið gefnar út lengur þótt þær teljist til helstu meistaraverkra ný-grískrar menningar. Þetta hefur vakið mótmæli víða um heim, meðal þeirra sem hafa undirritað mótmælaskjal til forseta Grikklands er Nóbelsverðlaunahöfundurinn Nadine Gordimer. Stavrou er persona non grata á Kazantsakis safninu á Krít – á eyjunni sem er svo nátengd verkum hans.
Stavrou hins vegar heldur því fram að hann sæti ofsóknum, rétt eins og kirkjan hafi ofsótt Kazantsakis á sínum tíma.