17. júní verða 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Ýmislegt er ráðgert til að minnast þessa – sjálfur þjóðhátíðardagur Íslendinga er á afmæli Jóns, en samt hefur ekki mikið verið fjallað um afmælið. Kannski er fremur erfitt að „selja“ Jón? Hann er frelsishetja sem starfaði á skrifstofu allt sitt líf. Kannski hafa menn heldur ekki mikið nýtt að segja um Jón. Það er búið að skrifa býsna margar ævisögur hans.
Það er miklu meira fjallað um annað afmæli. Bókabúðir í Reykjavík hafa stillt upp ævisögum og það úir og grúir af afmælistónleikum og þáttum í útvarpi.
Þetta er afmæli Bob Dylans sem er 70 í dag. Bubbi segir að hann sé mesta skáld samtímans – og vestanhafs er tala um hann sem the greatest living American.