Það er eiginlega ekki logið upp á Hörpu. Dagskráin þar er stórglæsileg þessa fyrstu mánuði hússins.
Í gær voru þar tónleikar með söngvaranum Jonas Kaufmann. Ég var ekki þarna, en mér er sagt að tónleikarnir hafi verið stórkostlegir. Kaufmann söng fjögur eða fimm aukalög.
Nú hefur verið tilkynnt að 16. júní leiði Kristinn Sigmundsson og Víkingur Heiðar Ólafsson saman hesta sína og flytji Vetrarferð Schuberts í Eldborgarsalnum. Það verður gaman að sjá píanóleikarann unga og söngvarann, sem er hokinn af reynslu, saman á sviði. Hljómburðurinn í salnum er svo góður að þar er hæglega hægt að leika kammertónlist og iðka ljóðasöng án þess að flutningurinn bíði skaða af.
Svo var sagt frá því í gær að Maria Joao Pirez, píanisti frá Portúgal, myndi halda tvenna tónleika í Hörpunni í byrjun júlí. Sjálfur á ég nokkra hljómdiska með leik Pirez – hún er stórkostlegur tónlistarmaður.
Að ógleymdum Mahlertónleikum sem verða nú næsta laugardag, en þar verður flutt fjórða sinfónía Mahlers, en 18. maí voru liðin hundrað ár frá fæðingu þessa mikla meistara.
Maria Joao Pirez hefur gert frægar hljóðritanir á verkum eftir Mozart, Chopin og Schumann og Schubert hjá Deutsche Grammofone.