Venjan með Lars Von Trier er yfirleitt að vorkenna leikurum að vera í myndunum hans.
Í dómi í Guardian þar sem nýjasta mynd hans Melancholia er hökkuð niður fellur þessi vorkunn á Kirsten Dunst.
Áður hefur Björk verið vorkennt fyrir að hafa verið í mynd eftir hann og Nichole Kidman, já og fleirum.
Trier byrjaði kvikmyndaferil sinn mjög vel – hann virkaði nánast eins og undrabarn þegar hann gerði myndirnar Element of a Crime, Europa og sjónvarpsseríuna Ríkið. Hún var snilld, það langbesta sem Trier hefur gert.
Svo hallaði undan fæti. Jú, Breaking the Waves og Dancer in the Dark nutu ákveðinnar hylli, en virkuðu eins og tilraunir í því hversu langt væri hægt að fara með afkáralegt melódrama. Upplifunin var eins og væri verið að hæðast að tilfinningum auðtrúa kvikmyndahússgesta.
Idioterne var langur ósmekklegur brandari – og síðan hefur allt sem Trier kemur nálægt verið drasl. Ég játa að ég gat ekki horft á nema kortér af Andkristi – síðustu tilraun hans til að hneyksla þangað til nú að hann lýsir því yfir að hann sé nasisti.