Í borginni Bielefeld í Þýskalandi eru næstum nákvæmlega jafn margir íbúar og á Íslandi. Þetta er blómleg borg, þar er háskóli og margvíslegur iðnaður. Lífskjör eru góð.
Þetta er reyndar ekki fræg borg. Í Þýskalandi þekkist það sem kallast Bielefeld brandarinn. Hann gengur út á að borgin sé í rauninni ekki til – það sé bara í gangi samsæri um að láta fólk halda svo. Hljómar svona:
1. Þekkirðu einhvern frá Bielefeld?
2. Hefurðu einhvern tíma komið til Bielefeld?
3. Þekkirðu einhvern sem hefur komið til Bielefeld.
Menn svara auðvitað nei við öllum spurningum, en ef þeir segja já, þá eru þeir hluti af samsærinu.
Um daginn skrifaði þingkona Framsóknarflokksins þessa setningu um Evrópusambandið: „Ísland er í raun eina tækifæri Evrópusambandsins til að lifa af.“
En ætli ESB geti lifað án Bielefeld?