Dominique Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem nú er ákærður fyrir nauðgun í New York, hefur verið efstur í skoðanakönnunum um hver verði næsti forseti Frakklands. Ákæran á hendur honum setur aldeilis strik í reikninginn. Strauss-Kahn er hefur verið talinn sá frambjóðandi sem gæti helst ógnað Sarkozy forseta – sem ekki vinsæll. Strauss-Kahn hefur lengi skipulagt framboð sitt og það var búist við því að hann myndi tilkynna það nú í júní. Kosningarnar eru næsta vor.
Strauss-Kahn sækist eftir því að verða frambjóðandi Sósíalistaflokksins. Flokkurinn hefur verið í tilvistar- og leiðtogakreppu, eiginlega síðan á dögum Mitterrands. Aðrir mögulegir frambjóðendur flokksins eru Ségolene Royal, sem tapaði illa fyrir Sarkozy í síðustu kosningum, og Martine Aubry sem er dóttir Jacques Delors – hins fræga leiðtoga Evrópusambandsins. Það hefur verið talið að Strauss-Kahn ætti auðveldara með að ná til kjósenda á miðjunni en Royal og Aubry.
Af öðrum líklegum frambjóðendum má nefna Evu Joly fyrir græningja og Marinu Le Pen fyrir Þjóðfylkinguna. Ef Sósíalistar bjóða upp á lélegan frambjóðanda er ekki óhugsandi að endurtaki sig atburðirnir frá 2002 þegar Marinu, Jean Marie Le Pen, komst í síðari umferð forsetakosninganna. Það þótti mikil hneisa fyrir Frakkland.
Strauss-Kahn er þrígiftur og hefur ekki verið við eina fjölina felldur í kvennamálum. Hann átti í ástarsambandi við strarfsmann AGS fyrir nokkrum árum, var þá hreinsaður af ásökunum um kynferðislega áreitni en þurfti að biðjast afsökunar.
Strauss-Kahn er af gyðingaættum, fæddur í Marokkó. Það er ekki efast um gáfur hanns, hann átti glæsilegan námsferil og er mjög snjall í tilsvörum. Hann þykir hafa staðið sig vel í starfi sínu hjá AGS og það hefur styrkt stöðu hans í frönskum stjórnmálum. Hann varaði við kreppunni áður en hún kom – og var einna fyrstur valdamanna til að segja að það þyrfti að dæla ógurlegum fjárhæðum inn í efnahagskerfi heimsins ef það ætti ekki að hrynja.
Kona hans er næstum enn frægari en hann í Frakklandi. Hún heitir Anne Sinclair og er mjög vinsæl sjónvarpskona. Þess utan er hún erfingi nokkurra auðæfa.
En útlitið hjá Strauss-Kahn er dökkt. Ásakanirnar á hendur honum virðastbýsna alvarlegar og hann er lentur í myllum bandaríska dómskerfisins – sem sleppir ekki svo glatt. Líkurnar á að hann verði forseti virðast vera fyrir bí – sem og líklega stjórnartíð hans hjá AGS.
Strauss-Kahn: Hann hefur verið talinn einna líklegastur til að verða næsti forseti Frakklands.