Útgefandi Morgunblaðsins segir að Davíð Oddsson geti haldið áfram sem ritstjóri blaðsins fram á elliár.
Eitt sinn var Morgunblaðið þjóðblað. Það hallaðist til hægri, en mestöll þjóðin treysti blaðinu, taldi sig ekki geta verið án upplýsinganna sem var að finna í því – blaðið var borið í næstum hvert einasta hús í Reykjavík.
Morgunblaðið hefur alveg misst þessa stöðu og það er engin viðleitni í þá átt að endurheimta hana. Í staðinn hefur blaðið orðið málpípa þröngra hagsmuna, fréttir blaðsins eru ekki trúverðugar , og af því leggur alltof sterkan keim af ritstjóranum og fortíð hans. Góðir ritstjórar stjórna blöðum og setja mark sitt á þau – en þeir eru ekki blöðin.
Útgefendum blaðsins virðist standa á sama um þetta – og líka þótt lesturinn minnki og blaðið færist lengra út í þröngt horn. Því verður sjálfsagt beitt óspart í deilunum um kvótakerfið – og meðan svo er mun féð sem er lagt er í blaðið varla þrjóta.