Samkvæmt nýjum tölum er góður gangur í hagkerfum Evrópuríkja á fyrsta hluta þessa árs. Þýska hagkerfið hefur nú meiri umsvif en fyrir hrunið 2008. Það þykir merkilegt að þetta byggist ekki bara á útflutningi frá landinu – sem hefur aldrei verið meiri – heldur líka á neyslu innanlands. Í Frakklandi hefur líka verið góður vöxtur í hagkerfinu.
Það sem kemur þó mest á óvart samkvæmt Der Spiegel er að gríska hagkerfið er líka að vaxa – um 0,8 prósent fyrsta fjórðung ársins.
Það hefur reyndar ekki verið mikið í fréttum en búist er við góðu ári í ferðamennsku í Grikklandi. Orsökin er fyrst og fremst betri efnahagshorfur í Evrópu – fólk ætlar einfaldlega að ferðast meira en síðustu ár.
Tal um að Grikkland ætli að yfirgefa evruna er úr lausu lofti gripið – enda gæti það þýtt ekki bara efnahagslegt heldur líka þjóðfélagslegt hrun í landinu.