Þetta er afar sérkennileg þingsályktunartillaga hjá Vigdísi, Gunnari Braga og Sigurði Inga.
Nú bý ég í miðbæ Reykjavíkur og var í frekar góðri aðstöðu til að fylgjast með því hvernig mótmæli þróuðust eftir hrunið í október 2008.
Þau fóru hægt af stað, en smátt og smátt fjölgaði í hópi mótmælenda. Aldrei varð maður var við að annað en að skipulagið væri frekar laust í reipunum. Og það var merkilegt að sjá hversu fjölbreyttur hópur kom niður í bæ að mótmæla.
Enda var ærin ástæða til. Það var bara heilt hagkerfi sem hrundi.
Ég veit ekki um neitt sem bendir til þessa að Vinstri grænir hafi stjórnað þessum aðgerðum – ekki fremur en hægt er að fullyrða, eins og sumir reyndu, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stjórnað mótmælafundinum stóra á Austurvelli 4. október síðastliðinn.
Maður er ekki alveg viss um eftir hverju er verið að fiska með þessari tillögu – en Búsáhaldabyltingin svokölluð var að mestu leyti sjálfsprottin. Hún beindist eðlilega gegn ríkisstjórninni sem sat þá – má ekki líka segja að árangursríkasta aðgerðin þessa daga hafi verið þegar mótmælendur fjölmenntu og tóku yfir fund hjá Samfylkingunni í Þjóðleikhúskjallaranum. Það var í raun þá sem varð ljóst að ríkisstjórnin var fallin.
Þegar horft er um öxl, og miðað við stærð atburðanna, má eiginlega segja að það hafi verið með ólíkindum að hún lafði þó þetta lengi – í þrjá og hálfan mánuð eftir hrun.