Það hefur alltaf verið ágætlega til vinsælda fallið að gangast upp í einhverjum sjálfskipuðum plebbisma.
Og ábyggilega vinsælla til skamms tíma litið en að tala máli menningarinnar. Menningin dugir hins vegar betur til lengri tíma.
En það er samt dálítið hart að halda því fram að einungis menningarelíta hafi yndi af tónlist.
Með alla tónlistarskólana og kórana og hljómsveitirnar allt í kringum landið.
Og hvað varðar tónlistarhúsið Hörpu þá er greinilegt að tugir þúsunda munu fara í gegnum húsið á fyrsta mánuði þess.
Sinfónían, Ashkenazy og Víkingur fylltu húsið þrisvar. Páll Óskar gerir gott betur og verður með fimm tónleika með Sinfóníunni. Það er uppselt á barnatónleika með Sinfóníunni á sunnudag. Þarna munu líka troða upp Helgi Björns, Eivör, Bogomil Font og fleiri með íslenskar dægurperlur. Jú, að ógleymdum hlustendaverðlaunum FM og tónleikum með Ólöfu Arnalds og Skúla Sverrissyni. Tenórnum Jónasi Kaufmann sem syngur léttar aríur. Afrocubisma frá Kúbu og Malí. Sigríði Thorlacius og Sigurði Guðmundssyni ásamt Sinfó með létt lög.
Meira að segja lúðrasveitin Svanur er stórhuga og ætlar að halda tónleika í Hörpu í næstu viku.
Allt er þetta frekar létt og alþýðlegt og fellur greinilega vel í kramið – og má í raun segja að eina prógramið sem getur talist í þyngri kantinum séu Mahler tónleikarnir 28. maí.