Það er skrítin staða sem er komin upp í kvótamálunum.
LÍÚ-arar reka upp ramakvein vegna kvótafrumvarps ríkisstjórnarinnar. Það var ekki við öðru að búast. Maður veltir því samt fyrir sér hvort þetta sé ekki leiksýning öðrum þræði.
Frumvarpið er óralangt frá ítrustu kröfum sem hafa verið uppi meðal andstæðinga kvótakerfisins – það er ekki verið að fara fyrningarleiðina sem Samfylkingin setti fram.
Þannig að í raun getur LÍÚ ágætlega við unað – óbreytt kerfi var varla möguleiki. Kvótahafar halda sínu í 22 ár, veiðigjald verður nokkuð hærra en var og spornað verður gegn framsali kvóta.
Hugmyndir Samfylkingarinnar fengu ekki hljómgrunn innan Vinstri grænna. En Samfylkingin gat ekki stillt VG upp við vegg í þessu máli. VG er búið að gefa svo mikið eftir í Evrópumálunum að það var erfitt fyrir Samfylkinguna að halda stefnu sinni í sjávarútvegsmálum til streitu.
Þess vegna er útkoman þessi málamiðlum sem varla neinn er sérlega ánægður með. Hún á eftir að vekja miklar deilur í samfélaginu – í bakgrunni eru svo bankastjórar sem láta sér ekki til hugar koma að sleppa hendinni á þeim yfirráðum sem þeir hafa yfir sjávarauðlindinni vegna veðsetningar kvótans.