Ég birti í gær tvær vísur um Icesave, aðra eftir Þórarin Eldjárn, hina eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.
Hér er eitt kvæði í viðbót, það er eftir Magneu Matthíasdóttur og nefnist Æseifkviða efasemdamannsins. Fer kannski nærri um það hvernig flestum líður en hin tvö:
Ég ku eiga að kjósa um Æseif
og kunna á því máli skil,
þó vefjast enn fyrir mér vextir og svona
og ég veit ekki hvað ég vil.
Ef klóra ég kross við nei-ið
og kýs þessa dómstólaleið
þá verð ég að Armani-alþýðuhetju
sem étur úr silfraðri skeið.
Ef já-ið hugnast mér heldur
og hakið lendir við það
fær atvinnulífið víst erlent fjármagn
og allt fer aftur af stað.
Ég ráfa um bæinn og reyni
að ráða í greinar og pár
og á mér dynja áróðursræður
og allskyns heimsendaspár.