Ég hef alltaf verið nokkurn veginn viss um að nei-ið yrði ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Og mér þykir líklegt að Ólafur Ragnar Grímsson hafi vitað það líka – það eru fáir sem þekkja þessa þjóð betur en hann.
Þetta er ósköp einfalt.
Menn færa rök fyrir jáinu fram og aftur – sum eru góð, önnur verri. Margt er ekki hægt að sannreyna.
En þau detta eiginlega dauð niður í eyrum stórs hluta Íslendinga þegar fyrsti maðurinn segir:
„Á ég (börnin mín) að greiða skuldir óreiðumanna?“
Og svo er hin fullyrðingin sem vinnur mjög á, nefnilega:
„Íslendingar láta ekki segja sér fyrir verkum!“
Í raun gæti þetta orðið klassískt dæmi um hvernig rökræða þróast í stóru, flóknu deilumáli þar sem miklar tilfinningar eru í húfi – og líka pólitískir hagsmunir. Stúdía fyrir stjórnmálafræðinga framtíðarinnar.