Það er viðbúið að Icesave samningarnir verði felldir á laugardaginn – og það er forvitnilegt að sjá hvernig leiðtogar stjórnmálaflokkanna munu höndla það.
Ég hef áður spá því að ríkisstjórnin muni lafa að minnsta kosti fram á haustið þrátt fyrir að neiið verði ofaná.
En fley hennar er orðið mjög laskað – það er til dæmis vandséð að eftir þetta muni hún geta komið í gegn nokkrum breytingum að ráði á fiskveiðistjórnuninni.
Ein spurningin er svo hvað við þurfum að rífast mikið meira um Icesave eftir atkvæðagreiðsluna – það er orðið hreint með ólíkindum hvað þessi litla þjóð hefur eytt miklum kröftum í þetta mál.
Minnir helst á Bunuelmynd sem heitir Engill útrýmingarinnar og fjallar um fólk sem fer í veislu en kemst ekki aftur þaðan út. Það er einhver óskilgreindur kraftur sem heldur þvi föstu.
Eins og stendur eru flestir ringlaðir, nema kannski þeir sem nærast á þessari umræðu. En kannski verður ekki mikið meira að tala um í bili þegar næsta vika rennur upp. Það verður forvitnilegt að sjá viðbrögð Breta og Hollendinga. En þá verður líklega runninn upp tími dómstólanna og sú vegferð getur orðið nokkuð löng og þrátt fyrir síbylju umræðunnar er erfitt að spá hvernig það endar.
Lífið mun halda áfram sinn vanagang, en það dofnar stöðugt yfir hugmyndum um nýtt Ísland sem var haldið á lofti eftir hrunið. Þær hafa flestar týnst í innbyrðis átökum. Það verður merkilegt rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga hvernig málin þróuðust svona.