Icesave umræðan er farin að taka á sig ýmsar myndir nú síðustu vikuna fyrir kosningar og sumar nokkuð fáránlegar. Seinna verður þetta kannski stúdía í því hvernig samfélag fer af hjörunum.
Eitt sem nú heyrist út um allt er að það sé einhvers konar elíta sem vilji samþykkja Icesave – sjálfsagt vegna þess að það sé henni í hag, en ekki íslenskri alþýðu.
Þetta er alþekkt aðferð úr pópúlískum áróðri – að ala á óvild í garð forréttindafólks og menntamanna. Virkar vel – en er kannski alveg mátulega málefnalegt. Hefur verið notað alveg frá tíma Grikkja og Rómverja. Júlíus Sesar þótti til dæmis ansi flinkur í þessu.
Meðal þeirra sem eru farnir að beita þessu mælskubragði eru alþýðumenn eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Björn Bjarnason, Styrmir Gunnarsson og Davið Oddsson.