Ketill Sigurjónsson orkubloggari skrifar um einkavæðingu orkuveitna í Kína og franska fyrirtækið Veolia sem er risi á þessu sviði, með álíka marga starfsmenn og íbúa Íslands.
Niðurlagsorð pistilsins eru svohljóðandi:
„Vatnsveitusamningar Kínverjanna við Veolia hafa gjarnan verið til 50 ára þ.a. vatnið í milljónaborgum Kína á eftir að mala gull í áratugi fyrir Frakkana. En kínversk stjórnvöld eru útsmogin; sem fyrr segir eiga þau gjarnan stóran hlut í vatnsveitufyrirtækjum Veolia í Kína og njóta því líka góðs af hinum skyndilega arðbæra kínverska vatnsveitubransa.
Já – þarna eystra hefur almenningur og atvinnulífið loks fengið betra vatn. Um leið fær Veolia pening í kassann og sameiginlegir sjóðir á vegum stjórnvalda njóta líka góðs af. Kannski má segja að allir séu sigurvegarar í kínversku vatnseinkavæðingunni. Á endanum er það þó auðvitað almenningur sem borgar brúsann – sama hvort í honum er vatn eða eitthvað annað.
Nú er bara spurningin hvort Orkuveita Reykjavíkur hugleiði að fara í vatnsveituútrás. Vatn Erlendis Invest. Er ekki VEI örugglega miklu flottara en REI?“