Sigrún Davíðsdóttir rifjar upp OZ ævintýrið í pistli í Speglinum, en hún segir að það hafi frekar einkennst af von um skjótfenginn gróða en þolinmóðri uppbyggingu hátæknifyrirtækis. Hún fjallar um skuldir sem voru afskrifaðar á þessum tíma af Skúla Mogensen sem nú er orðinn einn aðaleigandi MP-banka. Það er líka erfitt að verjast þeirri tilhugsun að OZ og DeCode hafi verið eins og generalprufa fyrir hrunið sem síðar varð. Niðurlagsorð pistils Sigrúnar eru svohljóðandi:
„Það hefur áður verið nefnt að það er leiðinlegt að vera með stöðuga neikvæðni þegar menn taka til höndunum og byggja eitthvað upp. Það er ekkert útilokað að Skúli hafi lært af óförum Oz og óförunum sem Landsbankinn létti af honum. En sagan um endurreisn MP banka á sér kunnuglegar hliðstæður. Þarna kemur til sögunnar Íslendingur sem hefur selt fyrirtæki erlendis, þó ekki vitað hvort það eru þeir peningar eða lán, líkt og þegar Björgólfur Thor Björgólfsson og faðir hans keyptu Landsbankann. Samkvæmt heimildum Spegilsins þekkjast þeir Skúli og Björgólfur Thor vel frá fornu fari. Svo eru það erlendir fjárfestar sem eru engir fagfjárfestar í bankageiranum. Og fenginn mætur maður sem stjórnarformaður en sem hefur þó hvorki reynslu af né sérþekkingu á bankarekstri. Og menn stefna á 15-20 prósenta arðsemi eigin fjár sem er bratt í umhverfi með 1-5 prósenta vexti. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þetta hljómi allt eins og endurflutningur á gömlu leikriti.“