Miðað við ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar um vaknandi lýðræðisvitund Íslendinga hlýtur að stefna lóðbeint í þjóðaratkvæði um kvótann.
Það gæti orðið einhvern veginn svona: Lagt verður fram frumvarp um fiskveiðistjórnun.
Það verður samþykkt eða fellt á Alþingi með naumum meirihluta.
Það verða hatrammar deilur úti í samfélaginu.
Forsetinn, miðað við fyrri yfirlýsingar, getur ekki annað en vísað málinu til þjóðarinnar.
Þá mun hefjast nánast óbærilegt áróðursstríð. Deilurnar vegna Icesave verða barnaleikur miðað við þetta.
Það verða heldur ekki sömu fylkingar – margir sem stóðu saman með eða á móti Icesave lenda í andstæðum hópum.
Óbilgjörn framganga LÍÚ og SA síðustu daga er vond strategía. Almenningur fær á tilfinninguna að hroki og frekja ráði ríkjum í þessum herbúðum, áhrifin eru þveröfug við það sem til er ætlast – það er líklegra að ráðist verði í breytingar á kvótakerfinu eftir en áður og allt tal um sættir hefur holan hljóm.