Ég er staddur í Seattle, nyrst í Bandaríkjunum, við Kyrrahafið. Þetta er skemmtileg og lífleg borg, við erum á hóteli rétt hjá frábærum bænda- og matarmarkaði sem þykir sá besti í Bandaríkjunum. Það er upplifun að skoða matvælin sem þar eru í boði, ekki síst fiskmetið sem er ferskt og fjölbreytt. Í gær fórum við á veitingahús við höfnina þar sem er hellt á borðið hjá manni skelfiski, maður fær hamar og þarf svo að vinna sig úr hrúgunni. Þetta var mjög skemmtilegt og maturinn ljúffengur, enda var staðurinn troðfullur af fólki.
Borgin er býsna norðarlega, svo vorið er rétt að koma. Það er komið brum á trén, hitinn á daginn fer upp í svona 12-15 stig, en á kvöldin hrapar hann niður og er varla meiri en 3-4 gráður.
Fólkið hérna er býsna fjölbreytt, margir eru af asískum uppruna, og maður hefur á tilfinninguna að maður sé kominn í sérstakan heimshluta, það sem nefnist The Pacific Northwest. Þetta þykir vera uppgangsstaður, höfnin er stór og í gegnum hana kemur mikill varningur frá Asíu, hér eru Boeing flugvélaverksmiðjurnar, héðan er Bill Gates, sá frægi auðjöfur, og svo er fyrsti Starbucks staðurinn í næstu götu hér fyrir neðan hótelið. Hann var stofnaður 1971. Ég vissi ekki að kaffihúsakeðjan heitir eftir Starbuck sem er fyrsti stýrimaðurinn í skáldsögunni Moby Dick. Stofnendur kaffihússins voru tveir kennarar og rithöfundur, fyrsta hugmyndin var að það héti Pequod, sem er nafnið á hvalveiðiskipinu í bókinni.
Starbucks staðirnir eru nú rúmlega 17 þúsund.
Í gær voru tónleikar hérna sem mig langaði á. Paul Simon, sá eini sanni var að spila í hljómleikahúsi sem nefnist Showbox, og rúmar aðeins um þúsund áhorfendur. Fyrir nokkrum dögum var hann með tónleika í stærri sal. En það var ekki nokkur leið að fá miða. Showbox er rétt hjá hótelinu, svo við áttum leið þar framhjá um kvöldið. Út úr húsinu ómuðu tónar af plötu sem ég eignaðist þegar ég var tólf ára:
„No, I would not give you false hopes, on this strange and mornful day, but the mother and child reunion is only a motion away.“
Ég hefði gjarnan viljað vera á þessum tónleikum. Simon hefur fylgt mér lengi, alveg frá því við krakkarnir í Öldugötuskóla vorum saman að hlusta á Bridge Over Troubled Water og þangað til Graceland hljómaði stöðugt í partíum þegar ég átti heima í París á níunda áratugnum.
Eins og ég segi, þetta er skemmtileg og aðlaðandi borg. Hún virðist þó hafa einn löst. Hér er mjög mikið af heimilislausu fólki á götunum. Auðvitað er þetta svona víðar í Bandaríkjunum, en hér er það mjög áberandi. Við vorum á ferli mjög snemma í gærmorgun – vegna tímamismunarins – og þá voru útigangsmenn hvarvetna og aftur var það svona í gærkvöldi þegar við vorum að fara heim á hótelið og flestir aðrir borgarbúar voru farnir til síns heima.
Bandaríkin eru sannarlega land aðstæðna, hér er margt gott og skemmtilegt, fólkið oft framúrskarandi almennilegt gaman að spjalla við það, en svo eru aðrir hlutir sem maður furðar sig á að líðist.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=7Pa5H_4lBXs]