Ég man eftir Ingólfi Margeirssyni frá því ég var lítill strákur. Var heimagangur á Brávallagötu 26 þar sem hin stóra fjölskylda hans átti heima. Ingó hefur líklega verið í menntaskóla þegar ég tók fyrst eftir honum, ég man eftir honum og afskaplega fjörugum vinum hans sem sumir urðu seinna landsfrægir.
Ingó var óvenju hæfileikaríkur maður. Á næstu dögum verður mest fjallað um ritstörfin hans. En hann var líka flinkur teiknari og teiknaði sjálfur portrettmyndir sem skreyttu viðtölin frægu sem hann tók í Þjóðviljanum á sínum tíma. Hann var ekki maður segulbandsins, heldur skrifaði viðtöl í gamla stílnum, þau voru eins konar nærmyndir af viðmælendunum þar sem höfundarbragð Ingólfs leyndi sér ekki. Þegar ég byrjaði í blaðmennsku reyndi ég að taka svona viðtöl, fyrirmyndirnar voru Jökull, Matthías og Ingó.
Ingó varð svo ritstjórinn minn á Helgarpóstinum en ég var viðloðandi þann fjölmiðil á árunum 1983 til 1987. Þar var Ingó ekki bara góður og skemmtilegur yfirmaður – heldur var vinátta okkar eiginlega mest í gegnum tónistina. Ingó spilaði á gítar óg píanó, ég þóttist eitthvað geta sungið, og þegar var efnt til gleðskapar á blaðinu tókum við oft lagið. Við reyndum meira að segja að stofna hljómsveit með Árna Þórarinssyni á trommum. Hún varð ekki langlíf, en það var afar gaman að músísera með Ingólfi.
Hann var semsagt músíkalskur, flottur teiknari, einn okkar besti blaðamaður, rithöfundur sem skrifaði sérlega góðar ævisögur – hæfileikamaður á mörgum sviðum.
Það var auðvitað mikið áfall þegar Ingó missti heilsuna. Honum var ekki ætlaður mikill bati. En hann barðist áfram, gafst ekki upp við að skrifa, fór í Háskólann og lærði sagnfræði. Ingó var dugnaðarforkur og eljumaður – og alltaf var hann glaður, jákvæður og uppörvandi þegar maður hitti hann.
Fyrir stuttu var móðir Ingós, Laufey, kvödd. Hún var hundrað ára og ein frábærasta kona sem ég hef kynnst. Mér þykir gott til þess að hugsa að hún þurfti ekki að upplifa sonarmissi í ellinni.
Ég sendi fjölskyldu Ingós samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng og hæfileikamann lifir.