Vantrausttillaga þarf ekki að vera svo slæmt mál fyrir ríkisstjórnina. Það er eiginlega öruggt að hún standi hana af sér. Stjórnin hefur þriggja sæta meirihluta á þingi.
Það er harla ólíklegt að órólegu þingmennirnir í VG greiði atkvæði með vantrausti. Það er ekki einu sinni víst að Atli Gíslason og Lilja geri það heldur – Atli hefur að minnsta kosti sagt að það sé ekki sjálfgefið. Lilja Mósesdóttir er í útlöndum.
Framsóknarflokkurinn er ekki með í vantrausttillögunni – hana undirrita einungis þingmenn Sjálfstæðisflokksins – og Höskuldur Þórhallsson þingmaður segir að það sé ekki víst að Framsóknarmenn styðji hana.
Það verða sjálfsagt heitar umræður um vantraustið. Sjálfstæðisflokknum gefst tækifæri til að stilla sér upp gegn ríkisstjórninni. En fyrir utanaðkomandi virkar þetta svolítið eins og Bjarni Benediktsson sé að reyna að sýnast harður.
Hann hefur jú fengið þá afarkosti frá ritstjóra Morgunblaðsins ásamt mestöllum þingflokki Sjálfstæðisflokksins að annað hvort játi þau á sig mistök og skipti um stefnu eða fari frá ella.
Þannig er vantraustið svolítið eins og til innanhússbrúks í Sjálfstæðisflokknum en allsendis óvíst að það muni skaða ríkisstjórnina. Gæti jafnvel þétt raðir hennar.