Hagfræðiprófessorinn og einn helsti boðberi frjálshyggju á Íslandi á sínum tíma, Þráinn Eggertsson, er í viðtali í nýjasta hefti tímaritsins Frjálsrar verslunar.
Það er svosem ekki sérstaklega í frásögur færandi, nema að viðtalið eru furðu sjálfhælið miðað við að þarna talar einn helsti iðkandi fræðigreinar sem á við stórkostlegan trúverðugleikabrest að stríða.
Eitt af því sem Þráinn nefnir er að í fjölmiðlum sé farið að tala við alls konar fólk um hagfræðileg málefni, ekki bara sérfræðinga. Þetta þykir honum vont.
En þá má kannski benda á að enginn íslenskur hagfræðingur (að Þorvaldi Gylfasyni undanskildum) varaði við hruni íslenska hagkerfisins.
Það kom í hlut læknis að gera það. Sterkustu varnaðarorðin sem bárust innanlands fyrir hrun voru frá Andrési Magnússyni geðlækni. Hagfræðingarnir hæddu hann – og töldu einmitt að þarna væri maður sem ekkert vissi farinn að stíga inn á svið sérfræðinnar.
Hagfræði er afskaplega óviss vísindi. Hún eru til dæmis ekkert mikið betri til að spá um framtíðina en sagnfræði gagnast til að spá um framvindu sögunnar. Eftir efnahagshrunið í heiminum eru hún í meiriháttar krísu. Hagfræðingar virðast hafa tilhneigingu til að hreyfast í stórri hjörð, þeir fara unnvörpum að trúa á sama kerfið og sjá ekki veilurnar í því eða utanaðkomandi hættur.
Og þess vegna getur stundum verið alveg jafn gott að tala við leigubílsstjóra, rakara eða lækna um hagfræðileg málefni.