Davíð Oddsson ætlar aldeilis ekki að grafa stríðsöxina þótt Icesave hafi verið fellt. Eins og hér hefur verið nefnt er Icesave á þeim bæ fremur svipa til að berja með, vopn í pólitískum vígaferlum, en eiginlegt hugsjóna- eða sannfæringarmál. Hvernig mætti það líka vera, þegar Icesavereikningarnir blómstruðu í skjóli seðlabankastjórans fyrrverandi?
Í leiðara Morgunblaðsins stígur hann beint inn í átök dagsins í Sjálfstæðisflokknum. Hótar beinlínis núverandi flokksforystu:
Hún skuli fara frá á landsfundi sem eigi að halda á þessu ári (það er þá gleymt að Davíð frestaði sjálfur landsfundum þegar honum hentaði) eða ganga svipugöngin og endurvinna sér traust flokksmanna.
Átök í Sjálfstæðisflokknum eru langt í frá afstaðin þótt Bjarni Benediktsson reyndi að bera sig vel á sunnudaginn eftir Icesave kosninguna. Stóra spurningin hlýtur að vera hversu lengi flokkur hangir saman sem hefur í sínum röðum annars vegar Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson og hins vegar Þorstein Pálsson, Benedikt Jóhannesson, Ólaf Stephensen og Vilhjálm Egilsson?
Og flokksforystu sem sveiflast milli þessara fylkinga?