Ég skrifaði um daginn um gömlu verkamannabústaðina við Hringbraut sem nú hafa verið friðaðir.
Mér hefur alltaf þótt gaman að velta fyrir mér þessum byggingum, skipulagi þeirra og hugsjóninni bak við þær.
Hilmar Þór Björnsson skrifar skemmtilegar greinar um arkitektúr og skipulag hér á Eyjuna – hér fjallar hann um verkamannabústaðina í nýrri grein sem ég mæli með. Hann útskýrir meðal annars muninn á bústöðunum sem Guðjón Samúelsson teiknaði og þeim sem Gunnlaugur Halldórsson teiknaði. Gunnlaugur náði að teikna húsin þannig að umhverfið yrði mjög sólríkt.
Mig langar svo að birta þrjár athugasemdir sem ég fékk við upphaflegu greinina um verkamannabústaðina.
Fyrst er það athugasemd frá Benedikt Sigurðarsyni:
„Merkilegt samt að þessi verkamannabústaðir voru „eignaríbúðir“ – og sagan segir að íhaldið sem öllu réði í Reykjavík 1929 hafi gert samkomulag við Héðinn Valdimarsson um að EKKI yrðu byggðar leiguíbúðir eða „neitt Sovét-skipulag“ – – annars fengju slíkir bústaðir einfaldlega ekki lóðir. Sama varð uppi á teningnum þegar „Stjórn hinna vinnandi stétta“ hugðist leggja upp með byggingarsamvinnufélög . . . – og þá lúffaði Hermann Jónasson og Haraldur Guðmundsson fyrir Íhaldinu í Reykjavík – -og byggingarsamvinnufélögin voru félög um „sjálfseign“ – nk. samlagsfélög en ekki samvinnufélög. Síðan tók það áraqlanga baráttu 1983-1989 að fá heimildir til að starfrækja húsnæðissamvinnufélög með stofnun Búseta og ´búsetafélaga út um land. Engin leigufélög hafa hins vegar orðið til á grundvelli hugmynd um sam-félagslega eign og lágmarkskostnað fyrir almenning – nema með örlítilli undantekningu hjá Búseta í Reykjavík sem í dag rekur almennt leigufélag á kostnaðargrunni – og mun ekki taka út fjármagn úr þeim rekstri.“
Önnur frá Ásgeiri Brynjari Torfasyni:
„Það er einstakt tækifæri til þess að koma á fagmannlegum leigumarkaði á Íslandi nú í framhaldi hrunsins. Í fjármálakreppunni í Svíþjóð í upphafi níunda áratugarins leystu bankarnir til sín veð sem oft var húsnæði (þó að í því tilfelli hafi mest verið um að ræða atvinnuhúsnæði þá er það aukaatriði hér). Við björgun bankanna, sem fóru nánast á hliðina við þetta, þá var þessum fasteignum komið fyrir í sérstöku eignasýslufyrirtæki (Securum) sem síðan varð að tveimur stórum fasteignafélögum, sem nú eru meðal stærstu fyrirtækja á hlutabréfamarkaðinum í Stokkhólmi (Castellum og Kungsleden) og með lífeyrissjóðina sem stóra eignaraðila. Þannig skapast bæði tækifæri fyrir langtímafjárfestingu í öruggum eignum fyrir fjármagnseigendur, og tækifæri til heilbrigðs leigumarkaðar fyrir þá sem eiga lítið eigið fé og/eða vilja frekar leiga sér fermetra af fasteignafélagi í stað þess að „leigja“ sér fjármuni af banka.“
Og sú þriðja frá Einari Guðmundssyni, rithöfundi í Þýskalandi:
„Þarna eru gömlu rólurnar úr minni mínu, þar sem tvíburarnir Ása og Anna pössuðu mig eitthvað þriggja ára gamlan (önnur þeirra varð síðar móðir Jóns Ásgeirs, baugsara). Þessi rósamlegi róluvöllur, eins og hann lítur út á myndinni, varð á tímabili að liggja undir stöðugum skemmdarverkum. Það ríkti þjóðfélagslegur órói í strákum sem fæddir voru á styrjaldarárunum: þeir þurftu ð brjóta allt og bramla. Á kvöldin voru kaðlarnir í rólunum iðulega skornir í sundur, og rólustaurarnir jagaðir niður. Fyrir gamlárskvöldin komu menn frá Bænum og negldu mótatimburborð fyrir glugga gæzluskýslisins, en með rifum á milli borðanna þannig að hægt var að koma þar fyrir kínverjum. Allar rúðurnar fengu sín grátköst, og eldar voru kveiktir inni í skýlinu. Lögreglan var oft á sveimi við þennan Róló, sem var ekki allur þar sem hann var séður á meðfylgjandi mynd. Ég þykist meira að segja þekkja jeppann á myndinni, hann var með T-númeri. Það var Strandasýsla.“
Hilmar Þór Björnsson birtir þessa mynd sem er af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Sýnir eina af húsalengjunum sem Gunnlaugur Halldórsson teiknaði og í baksýn húsin sem Guðjón Samúelsson teiknaði.