Leiðari Viðskiptablaðsins fjallar um Orkuveitu Reykjavíkur og er sérlega tímabær. Þar segir meðal annars:
— — —
Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur stóðu í stórfelldri spákaupmennsku með erlenda gjaldmiðla á ábyrgð skattgreiðenda. Fyrirtækið stundaði bókhaldsæfingar með því að færa upp virði óefnislegra eigna til að greiða út arð. Það byggði sér monthús sem útrásarvíkingar höfðu ekki einu sinni hugmyndaflug í að jafna. Útreikningar á arðsemi byggðust á röngum forsendum – það er að segja erlendum vöxtum – og fyrirtækið fór út í hreina ævintýramennsku eins og Línu.net og rækjueldi. Allar ákvarðanir byggðust á óraunhæfum fjármagnskostnaði.
Nú þurfa skattgreiðendur að taka á sig gjaldskrárhækkanir og borgin að hætta takmörkuðu ráðstöfunarfé sínu til að hreinsa upp eftir galskapinn. Skattgreiðendur eiga heimtingu á að fá svör við því hvers vegna þetta fór svona úrskeiðis. Það þýðir lítið að benda á kostnað íbúa í nágrannalöndum við hita og rafmagn þegar gjaldskrárhækkanir eru réttlættar. Í næsta nágrenni Reykjavíkur frussast heita vatnið upp úr jörðinni, kalda vatnið er af bestu gæðum frá náttúrunnar hendi og raforkuframleiðsla hlutfallslega hagkvæm. Þetta eru forréttindi þess að búa á Íslandi, sem ekki má klúðra með óskynsamlegum ákvörðunum stjórnmálamanna.
Vandi Orkuveitu Reykjavíkur hefur um langt skeið verið verst varðveitta vandamál Íslands. Þrátt fyrir að stjórnmálamenn allra flokka í Reykjavík hafi komið sér saman um að ræða ekki vandann hefur hann verið öllum ljós. Það er því í raun athyglisvert hvernig reynt er að kenna núverandi borgarstjóra um vanda fyrirtækisins vegna þess að hann hefur tjáð sig um hann opinberlega. Sérstaklega í ljósi umræðunnar um meðvirkni stjórnmálamanna með fjármálageiranum fyrir hrun