Leiðin til frægðar hefur alltaf verið frekar stutt á Íslandi – og líklega hefur hún aldrei verið styttri en á fyrstu árum sjónvarpsins. Þá urðu allir sem komu fram í sjónvarpinu landsfrægir undireins – enda var öll þjóðin að horfa á þessa einu stöð sem var lokuð á fimmtudagskvöldum og allan júlímánuð.
Tveir af forsetum okkar fóru eiginlega beint úr sjónvarpinu í embættið. Kristján Eldjárn úr þættinum Munir og minjar og Vigdís Finnbogadóttir úr frönskukennsluþáttum þar sem öll börn á Íslandi lærðu að hafa eftir henni:
„Répétez s’il vous plait, Gérard!“
Gérard var nafnið á hinum frönskukennaranum í þáttunum, ég veit ekki hvað varð um hann. Vigdís var einfaldlega að biðja hann að endurtaka orð sín, en í munni barnanna hljómaði þetta einhvern veginn svona:
„Rubbidí silvúple Sjérar!“
Svo voru aðrir sem fóru beint úr spurningakeppnum í virðingarembætti, því fátt þótti fínna á Íslandi þeirra tíma en að sigra í spurningakeppni í Ríkisútvarpinu.
Sá mæti maður Magnús Torfi Ólafsson fór eiginlega beint úr spurningakeppni í stól menntamálaráðherra.
En svo voru þeir sem farnaðist ekki eins vel.
Mesta kappa úr spurningakeppnum á Íslandi kynntist ég þegar ég var næturvörður á Hótel Borg fyrir um 30 árum. Maður þessi vissi bókstaflega allt, hafði verið gjörsamlega ósigrandi í vinsælum spurningaþætti í útvarpinu. En hann var ekki sérlega hamingjusamur. Bjó á efstu hæð hótelsins og drakk mikið. Fræddi mig á ýmsum hlutum þegar hann gat ekki sofið á nóttinni.
Eitt af því sem hann gerði var að teikna fyrir mig Örlygsstaðabardaga á servíettu af mikilli nákvæmni og í annað skiptið þuldi hann upp æviminningar De Gaulles – sem hann dáði mjög – á frönsku.
Þetta var vænn karl og hann vissi margt, en ég er ekkert viss um að hann hafi verið gáfaðri eða greindari en annað fólk. Hann hafði bara límheila, hæfileika til að muna staðreyndir.
Sjálfur hef ég haft vott af þessu. Ég man oft meira en ég kæri mig um, og það eru ekki bara bókmenntir og heimspeki, nei það er ekki svo gott, heldur líka nöfn leikkvenna og fótboltamanna. Ég var ósigrandi í Trivial Pursuit þegar það kom á markaðinn. Mér fannst þetta ágætt einu sinni, en seinna komst ég að því að þetta væri ekki svo merkilegt – og kannski ekkert endilega gáfnamerki heldur. Það er mikilvægara að skilja en að læra eins og páfagaukur – og ennþá mikilvægara er að hafa hugmyndaflug og geta miðlað einhverju.
Ég ætla samt ekki að gera lítið úr spurningakeppnum, þær eru vinsælar á Íslandi og oft skemmtilegar – og keppnisliði Norðurþings skal óskað til hamingju með sigurinn í Útsvari. Ég tek fram að ég er kunnugur einum úr liðinu, Þorgeiri Tryggvasyni, og um hann verður ekki annað sagt en að hann sé bæði hugmyndaríkur og frjór. Ég kaus hann meira að segja á stjórnlagaþing, þótt ekki kæmist hann inn.