Marinó Gunnar Njálsson skrifar athyglisverðan pistil undir fyrirsögninni Vandi Orkuveitunnar er vandi Íslands í hnotskurn.
Þar fjallar Marinó um áhrifin af hruni krónunnar og segir að Íslendingar séu fyrst og fremst að súpa seyðið af því. Hann talar um hvernig skuldir hafa blásið út vegna gengisfallsins og verðbólga magnast upp. Margir myndu segja að þetta sé efnahagsstjórninni að kenna, en Marinó segist ekki hafa neina trú á að efnahagsstjórnin verði þannig í framtíðinni að hægt verði að notast við krónuna.
Marinó skrifar í niðurlagi pistils síns:
„Stærstu hagstjórnarmistök síðari ára var að binda ekki krónuna við einhvern annan gjaldmiðil árið 2001. Örmyntin krónan hafði og hefur ekki enn burði til að lifa sjálfstæðu lífi, a.m.k. með þá efnahagsstjórn sem Íslendingar hafa mátt búa við. Hún hefur raunar aldrei haft þá burði. Í árdaga ævi sinnar var hún jafnsterk dönsku krónunni og allt fram til 1920 að farið var að skrá hana sjálfstætt. Síðan erum við búin að sníða tvö núll aftan af og samt er ein dönsk króna yfir 21 íslensk króna. Virði íslensku krónunnar er í dag innan 0,05% af upphaflegu virði hennar fyrir hátt í öld. Hún hefur tapað tapað árlega 8,2% af virði sínu! Frá myntbreytingu er rýrnunin 10,3% árlega, en ef við látum duga að skoða rýrnunina til 31.12.2007, þá er árleg rýrnun (miðað við danska krónu) 9,6%. Verr tókst sem sagt til við að halda genginu stöðugu frá 1981 til áramóta 2007/8, en frá 1920 í gegn um heimskreppu og stríð til ársins 1981!
Ef sama þróun hefði haldið áfram 2008-10 og var frá 1981, þá væri danska krónan 16,59 íslenskar krónur, þ.e. 34,7% hækkun í staðinn fyrir 76,7% hækkun. Munurinn á því gengi og gengi dagsins í dag (1 DKK = 21,773 IKR) er 31,2% en það tekur ekki nema um 3 ár að vinna það upp.
Getuleysi stjórnvalda og Seðlabanka (og Landsbanka fyrir stofnun SÍ) til að hafa stjórn á krónunni er vandamálið. Menn geta falið sig bak við, að hún hafi bjargað einhverju eftir hrun, en gleyma því þá í leiðinni að vangeta stjórnvalda og Seðlabanka til að hafa stjórn á henni var orsök hrunsins, sem og óábyrg háttsemi fjármálakerfisins í undanfara hrunsins. Halda menn að stjórnvöld eða Seðlabankastjórnendur framtíðarinnar reynist þeir töframenn að halda krónunni stöðugri í ólgusjó alþjóðagjaldeyrismála? Ég hef enga trú á því. Framtíð myntmála Íslands verður fjarri íslensku krónunni.“