Í Kiljunni annað kvöld verður fjallað um heimspekinginn Hönnuh Arendt. Þetta er í tilefni af útkomu bókar með úrvali ritsmíða eftir Arendt en hún nefnist Af ást til heimsins. Ritstjóri bókarinnar, Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur, kemur í þáttinn.
Hannah Arendt (1906-1975) er einn merkasti stjórnmálaheimspekingur síðustu aldar. Verk hennar markast mjög af því hroðalega skipbroti sem stjórnmálin biðu í líki aðræðisstefnanna kommúnisma og nasisma. Hún var gyðingur, fædd í Köningsberg í Austur-Prússlandi, borg Kants, en starfaði mikið í Bandaríkjunum eftir að hún þurfti að fara frá Evrópu. Ein merkasta bók hennar nefnist Eichmann í Jerúsalem. Þar fjallar hún um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann, SS-manni sem bar ábyrgð á dauða fjölmargra gyðinga – hin óvænta niðurstaða Arendt var að Eichmann hefði þrátt fyrir allt verið kerfiskarl og skrifstofublók. Það var lágkúra illskunnar eins og hún kallaði það.
Við fjöllum um risastórt verkefni sem eru þýðingar á öllum Íslendingasögunum á norsku, dönsku og sænsku. Svipuð þýðing er þegar komin út á ensku – en útgáfan á norðurlandamálunum er ráðgerð á næsta ári. Við fáum í þáttinn Roy Jacobsen, rithöfund sem starfar við norsku útgáfuna, og Anette Lassen, sérfræðing á stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, sem starfar við dönsku útgáfuna.
Á rölti um Akureyri hittum við merkismann, Elías Pétur Sigurðsson, öðru nafni Ella P. Ævisaga hans kom út fyrir skemmstu undir nafninu U 206, en Elli er bóndasonur frá Berufjarðarströnd sem gerðist vörubílstjóri, man tímana tvenna og hefur lent í ýmsum ævintýrum. Elli hefur varðveitt flámælið sem þótti ekki fínt á Íslandi á árum áður – og hann er stoltur af því.
Þorgerður E. Sigurðardóttir og Haukur Ingvarsson fjalla um tvær bækur. Önnur er Okkurgulur sandur, það er safn ritgerða um Gyrði Elíasson, og hin er Konan sem fékk spjót í höfuðið eftir Kristínu Loftsdóttur.
En Bragi segir meðal annars frá því þegar Guðbergur Bergsson keypti sér íbúð.
Hannah Arendt á unga aldri. Sígarettan er yfirleitt ekki fjarri á myndum af henni.