Kvikmyndin The Way Back er eftir ástralska leikstjórann Peter Weir. Hann á ansi glæsilegan feril að baki, myndir eins og Picnic at Hanging Rock, The Year of Living Dangerously, Gallipoli, Witness, Dead Poets Society og Truman Show.
Þetta er stórmynd – fyrir fullorðið fólk. Ég sá hana í kvöld í Kringlubíói. Við vorum held ég fimm í bíósalnum, ég, konan mín, sonur og tveir aðrir gestir. Hún er ekki beinlínis að trekkja þessi mynd.
Sem er eiginlega synd.
Því fyrir utan að vera fjarskalega vel gerð á allan hátt, þá fjallar hún um efni sem hefur eiginlega ekki fengið náð í augum kvikmyndaheimsins.
Kvikmyndir sem fjalla um útrýmingarbúðir nasista og helförina eru legíó en hið sama verður ekki sagt um kvikmyndir sem fjalla um þrælkunarbúðir kommúnista.
Mynd Weirs byrjar í Gúlaginu í Síberíu árið 1941. Aðbúnaðurinn er hryllilegur, kuldinn skelfilegur, fangarnir fá lítið að borða og þeim er þrælað út við erfiðisvinnu við skógarhögg og í námum. Í búðunum er stéttaskipting, efst tróna verðirnir, svo venjulegir glæpamenn, svonefndir urkar, en neðst í goggunarröðinni eru pólitískir fangar. Þeir eru úrkast mannkynsins, almennu glæpamennirnir pína þá á alla lund.
Myndin fjallar svo um ævintýralegan flótta nokkurra fanga, niður með Baikalvatni, yfir Mongólíu, Himalayafjöll og til Indlands. Sú saga er öll hin áhrifamesta.
En það eru áhrifin frá lýsingunum á þrælkunarbúðunum sem sitja eftir. Við nauðaþekkjum nefnilega myndirnar úr dauðabúðum nasista. Þær eru eins og inngrónar í vitund okkar. En myndirnar úr Gúlaginu eru okkur framandi – en ættu ekki að vera það.
Hér eru brot úr myndinni – það er sannarlega þess virði að sjá hana. Hún er byggð á umdeildri sögu, sumir hafa efast um sannleiksgildi hennar, um hóp Pólverjasem nær að flýja úr Gúlaginu og komast alla leið til Indlands. Það skiptir ekki öllu máli hvort sagan er sönn, staðreyndin er sú að það var afar erfitt að flýja úr fangabúðum í Síberíu. Vegalengdirnar voru ógurlegar, kuldinn mikill og ef menn sluppu gátu þeir orðið bráð villidýra eða lent í klónum á innfæddum þjóðflokkum sem þáðu fé fyrir að skila föngum aftur, lífs eða liðnum.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=1Jlgenq_Ca0]