Það kemur ekki á óvart að Lilja Mósesdóttir hverfi úr þingflokki Vinstri grænna – og ríkisstjórnarliðinu.
Samflokksmenn hennar, eins og til dæmis Björn Valur Gíslason, hafa sagt að þar sé hún í raun ekki lengur. Þannig er þetta staðfesting á orðnum hlut.
Lilja virðist eiga ágætis samleið með þingmönnum Hreyfingarinnar, Þór, Margréti og Birgittu. Það er þó ekki víst að þar finni hún sér vist í pólitík.
Lilja gæti allt eins reynt að stofna nýjan stjórnmálaflokk á vinstri vængnum – það gæti verið tilraunarinnar virði.
Brotthvarf Atla Gíslasonar kemur meira á óvart. Atli hefur verið lengur í herbúðum Vinstri grænna. Þingferill hans hefur verið heldur skrykkjóttur. Hann hefur stundum látið sig hverfa af þingi í langan tíma – og varamenn þá tekið sæti hans.
Þá er spurning með Ásmund Einar Daðason sem gjarnan hefur átt samleið með Lilju og Atla í andstöðunni innan VG. Það er þó ekki víst að Ásmundur og Lilja myndu eiga svo vel saman í annarri stjórnmálahreyfingu, enda hafa menn þóst greina að helsti pólitískur guðfaðir Ásmundar sé Styrmir Gunnarsson fremur en nokkur á vinstri vængnum. Maður sér til dæmis ekki að Þór Saari og Ásmundur séu sérstaklega líklegir til að vinna saman.
Þótt Lilja og Atli væru í hópi þeirra stjórnarliða sem hafa talist ótraustastir, þá er þetta náttúrlega áfall fyrir ríkisstjórnarinnar. Þingmeirihluti hennar er naumur. Það er spurning hvort fer að verða kominn tími á uppstokkun í líkingu við það sem Margrét Kristmannsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, boðaði í Silfri Egils í gær.