Þeir voru að sýna í sjónvarpinu kvikmynd sem heitir Van Diemen´s land. Fjallar um Alexander Pefrægan strokufanga og mannætu í Ástralíu á tíma fangaflutninganna þangað. Þetta var býsna hryllileg mynd, ekki síst að sjá hvað landslagið í Tasmaníu var fjandsamlegt – og þannig var það í þessari álfu, stokufangar áttu litla möguleika að lifa af.
Við þetta rifjaðist upp fyrir mér ein allrabesta bók sem ég hef lesið. Hún heitir The Fatal Shore og er eftir Robert Hughes, fjarska ritfæran Ástralíumann sem er líka þekktur sem listgagnrýnandi.
Bókin náði metsölu í Ástraliu þegar hún kom út á níunda áratugnum, varð umdeild en hafði mikil áhrif. Minnti Ástrala á hina grimmilegu sögu fangaflutninganna – og var kannski skref til að sætta þá við hana.
Fangaflutningana má skoða sem eins konar æfingu fyrir Gúlagið eða fangabúðir nasista.
Afbrotamenn voru hreinsaðir burt úr Bretlandi og fluttir á hryllilegum skipum óravegu yfir heimshöfin. Margir dóu á leiðinni. Margt af þessu fólki hafði lítið til saka unnið. Fangarnir komu að framandi og óvinveittu landi. Margir létu lífið af því þeir þekktu ekki gróðurfarið.
Þeir sem reyndu að strjúka eða létu ekki að stjórn voru sendir í enn harkalegri fanganýlendur sem sumar voru nánast eins og útrýmingarbúðir. Þær alræmdustu voru á Van Diemenslandi (Tasmaníu) og á Norfolkeyju.
Með þessum hætti ætlaði breska heimsveldið að leysa tvö vandamál. Losna við óþarfa fólk úr heimalandinu – fangaflutningarnir hófust á tíma þegar gindrykkja var óskaplegur faraldur á Bretlandi – og leggja undir sig ný lönd í leiðinni.
Alexander Pearce var írskur vinnumaður sem hafði verið dæmdur fyrir að stela nokkrum skópörum. Hann endaði á Van Diemenslandi. Pearce strauk ásamt nokkrum öðrum föngum sem smátt og smátt týndu tölunni – þeir voru drepnir og étnir af þeim sem eftir lifðu.
Loks stóð Pearce einn uppi. Honum tókst að komast til manna, var handtekinn, í fyrstu trúðu menn ekki sögu hans. Þá strauk hann aftur við annan mann. Fanns loks með líkamsleifar af félaga sínum í vasanum.
Þá var hann hengdur og hlutaður í sundur. Það er sagt að fyrir andlátið hafi Pearce talað um hvað mannakjöt væri ljúffengt.
Kvikmyndin var satt að segja heldur niðurdrepandi.