Það er dýrðardagur úti. Sól skín í heiði. Í dag eru jafndægur að vori. Það var orðið bjart vel fyrir klukkan átta í morgun. Tími hinna björtu nátta er skammt undan.
Það er einkennilegt að sjá gróðurinn vaxa svo snemma árs – það er að koma brum á trén, grasið grænkar, í garðinum mínum eru vorblóm farin að blómgast.
Ég skoða veðurspána á hverjum degi – sem ég geri annars ekki – maður er svolítið hræddur um að komi kuldakast með gróðurskemmdum.
Það var bjart yfir bæjarlífinu í gær, dagurinn í dag gefur góð fyrirheit.
Íbúar Reykjavíkur fara ekkert sérlega snemma á fætur. Búðir og kaffihús opna yfirleitt ekki fyrr en í fyrsta lagi klukkan 10 um helgar, oft ekki fyrr en á hádegi. Það þætti seint í erlendum borgum.
Þegar maður gengur um Miðbæinn á morgni um helgar er flest fólkið sem er á ferli útlendir ferðamenn.
Svo renna saman í erlend og íslensk áhrif – Reykjavík er að verða skemmtilega alþjóðleg.
Ungur Bandaríkjamaður í bakaríinu í Lækjargötu sagði við afgreiðslustúkuna:
„Can I have one kleina?“
Og svo þegar ég labbaði út úr bakaríinu með birkirúnstykkin í poka heyrði ég tvo frönskumælandi menn segja:
„Est-ce qu’il faut avoir une kleina?“
Eigum við að fá okkur kleinu?