fbpx
Þriðjudagur 26.ágúst 2025
Eyjan

Um kynjahlutföll í bókmenntaheiminum

Egill Helgason
Föstudaginn 18. mars 2011 09:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópur fólks skrifar um kynjahlutföll í Kiljunni. Það má lengi velta svona fyrir sér.

Ég held að enginn geti haldi því fram að konur sem skrifa bækur séu sniðgengnar í þættinum – eða bækur eftir konur.

Ég tek til dæmis Gerði Kristnýju, sem er ein þeirra sem skrifar á þennan lista. Hún gaf út ljóðabókina Blóðhófni fyrir síðustu jól. Um bókina var fjallað þrívegis í Kiljunni.

Í einum þætti las Gerður ljóð úr bókinni. Í öðrum þætti fjölluðu gagnrýnendur þáttarins um bókina. Í þriðja þættinum var viðtal við Gerði um bókina.

En stundum er úr vöndu að ráða. Til dæmis ef koma út fleiri bækur eftir karla en konur. Og það er einfaldlega staðreynd að svo er. Maður getur einfaldlega farið í Bókatíðindi og skoðað hvernig er í pottinn búið.

Þegar síðast var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og þýðingaverðlaunanna voru tilnefndar bækur eftir 11 karlmenn og 4 konur.

Frá því farið var að veita Íslensku bókmenntaverðlaunin 1989 sýnist mér að 34 karlar hafi hreppt þau en 9 konur. Einhver skyldi ætla að þar hefði kynjahlutfallið farið batnandi með árunum, en svo er í raun ekki.

Í Kiljunni er einkum fjallað um skáldverk, bækur um fræði og eitthvað um ævisögur. Því miður höfum við ekki haft mikið tóm til að fjalla um barnabækur.

Ég held ekki að hægt sé að nefna verk eftir konur sem ég hef sniðgengið á einhvern hátt.

Af bókum sem komu út á síðasta ári, og þá einblíni ég einkum á haust- og jólaútgáfuna, fjölluðum við um eftirfarandi skáldsögur eftir konur:

Jónína Leósdóttir, Allt fínt…en þú?: Kristín Eiríksdóttir, Doris deyr; Yrsa Sigurðardóttir, Ég man þig; Sigríður Pétursdóttir, Geislaþræðir; Steinunn Jóhannesdóttir, Heimanfylgja; Ingibjörg Hjartardóttir, Hlustarinn;  Kristín Steinsdóttir, Ljósa; Helga Thorberg, Loksins sexbomba á sextugsaldri; Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir, Mörg eru ljónsins eyru; Hugrún Kristjánsdóttir, Stolnar raddir; Yrsa Þöll Gylfadóttir, Tregðulögmálið; Þorbjörg Marinósdóttir, Makalaus.

Ég fæ ekki séð að við séum að gleyma neinni bók sérstaklega – og ef svo væri, þá væri ég meira en tilbúinn að bæta um betur. (Menn verða að gæta sín aðeins á Bókatíðindum, því þar eru líka skráðar að einhverju eldri bækur sem hafa verið endurútgefnar í kilju.) Og þarna eru líka karlar sem hefðu vel verðskuldað meiri og betri umfjöllun.

Af ljóðabókum fjölluðum við sem áður segir um Blóðhófni eftir Gerði Kristnýju, um Leyndarmál annarra eftir Þórdísi Gísladóttur og Síðdegi eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur.

Við getum farið í flokkinn um fræði og bækur almenns efnis, þar er öllu grautað saman, en aftur eru karlkyns höfundar fleiri en konurnar. Við höfum upp á síðkastið fjallað um verkið Allir í leik eftir Unu Margréti Jónsdóttur (um þá bók hefur raunar verið fjallað fjórum sinnum í Kiljunni með einum eða öðrum hætti) og svo var ítarlegt viðtal í síðasta þætti við Margréti Guðmundsdóttur um Sögu hjúkrunar á Íslandi. Ég sé að bókin Þóra og raunir íslenskrar embættismannastéttar eftir Sigrúnu Pálsdóttur er sett í flokk ævisagna, við fjölluðum auðvitað um hana líka. Og um Sjálfshjálparbók eftir Evu Hauksdóttur og Takk útrásarvíkingar eftir Láru Björgu Björnsdóttur.

Ég mun seint geta breytt kynjahalla aldanna. Það verður ekki gert í einum sjónvarpsþætti.

Einn merkasti bókaflokkur á íslensku heitir Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Ég reyni að fjalla um þessar bækur eftir megni. Lærdómsritin munu vera orðin 72 að tölu. Ég var að renna yfir þetta og sýnist að nærri öll séu eftir karlkyns höfunda. Og það sem meira er, þýðendurnir eru nær alltaf karlkyns og líka þeir sem skrifa hina ágætu formála að bókunum.

Lærdómsritin fjalla aðallega um heimspeki – er hún þá bara karlkyns heimur? En samkvæmt aðferðinni sem var notuð við þetta bókhald versnar kynjahlutfallið hjá mér alltaf til muna þegar ég fjalla um Lærdómsritin.

Eða listirnar?

Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, Kristján B. Jónasson, eiginmaður Gerðar Kristnýjar, hefur verið að gefa út bækur um listamenn og ljósmyndabækur hjá útgáfufélaginu Crymogeu. Þetta er mjög merkilegt framtak og gott.

En af þessum bókum sem Kristján hefur gefið út telst mér til að sirka 14 séu eftir karla en aðeins 2 eftir konur.

Á lista fólks sem skrifar um kynjahlutföll í Kiljunni eru menn sem hafa starfað með bókmenntahópnum Nýhil. Það er kannski misskilningur hjá mér, en ég hef alltaf upplifað Nýhil frekar sem strákfélag en stelpufélag. Nýhil heldur ekki út neinni vefsíðu að ég sé, svo ekki er hægt að ganga úr skugga um kynjahlutföll í útgáfubókum Nýhils.

Íslendingar er nú að ráðast í mikið verkefni, sem er útgáfa fjölda íslenskra bóka á þýsku í tilefni af bókamessunni í Frankfurt. Ef við förum nú út í kynjabókhald, hvernig ætli hlutföllin séu þar?

Auðvitað má alltaf gera betur í þessu efni og ekki stendur á mér að gera það. Mikilvægast er auðvitað að höfundar séu metnir að verðleikum, sem og annað fólk, en ég held að verði að skoða þetta í aðeins stærra samhengi en út frá einum sjónvarpsþætti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir að ESB-aðild sé engin ógn við sjávarútveginn

Segir að ESB-aðild sé engin ógn við sjávarútveginn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Trump leitar í smiðju höfundar hrunsins

Orðið á götunni: Trump leitar í smiðju höfundar hrunsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi