Sigrún Davíðsdóttir fjallar um samráðsmál og fleira skrítið í viðskiptalífinu á Íslandi og spyr hvort megi tala um siðfall í þessu sambandi.
Hluti pistils Sigrúnar sem birtist í Speglinum í gær er svohljóðandi:
— — —
„Ýmislegt varðandi starfsemi bankanna er nú í rannsókn, bæði á Íslandi og í Bretlandi. Það er búið að bera fram ákærur vegna sparisjóðsins Byrs. Fjármálaeftirlitið skoðar án efa gjaldþrota sparisjóði. Það átti að setja það inn í starfslokasamning eins sparisjóðsstjóra að lán til sonar hans yrðu afskrifuð. Eftirlit og aðhald í hvítflibbageirum hefur verið slakt á Íslandi. Menn sem stunda vinnu sína í jakkafötum hafa sjaldnast þurft að svara til saka. Ísland er ekkert einsdæmi í þessum efnum, alls ekki, en það gerir málið ekkert betra.
Í raun má taka Ísland sem dæmi um hvað gerist í viðskiptalífi þar sem er aldrei tekið á neinu nema í mesta lagi með sektum. Ef menn eru vissir um að það sé allt í lagi að svindla, svíkja og pretta því það bitni ekkert á þeim prívat og persónulega, þeir missi ekki einu sinni vinnuna jafnvel þó það komist upp, eru líkur á að menn láti undan freistingunni og svindli, svíki og pretti.
Samráðsmálin segja ófagra sögu um viðskiptasiðferðið á Íslandi. Ef maður leggur þá sögu saman við hrundu bankana og það sem blasir við í sparisjóðakerfinu er engu líkara en að það megi tala um siðfall í íslensku viðskiptalífi. Þetta var ekkert sem var að gerast í einhverjum undarlegum fyrirtækjum sem enginn vissi af. Nei, þetta gerðist í stórum fyrirtækjunum. Kaflarnir um viðskiptasiðferðið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis gefa áhugaverða innsýn í það efni.“