Staðreyndin er, og það sem má ekki segja, að Vesturlönd eru í bullandi vandræðum og kvíða vegna atburðanna í Líbýu, Egyptalandi, Bahrein og Alsír. Þau horfa með ótta til þess að uppreisnir breiðist víðar út.
Vesturlönd hafa reitt sig á harðstjóra í þessum löndum til að halda þeim mikla mannfjölda sem þar býr í skefjum, til að halda niðri olíuverði, til að tryggja hag Ísraels.
Mubarak var þægur og liðlegur harðstjóri, Gaddafi hefur virkað eins og hálfbrjálaður fantur – en menn hafa samt umborið hann.
David Cameron fór til Kaíró að reyna að ná tengslum við núverandi stjórnarherra þar. Þeir ríkja í umboði hersins. En þetta er sterkur leikur hjá Cameron – og aðrir vestrænir leiðtogar þurfa að vera skapandi í því hvernig þeir nálgast þessa miklu uppreisnarhreyfingu.
Einhvern tíma er hugsanlegt að Saudi-Arabía springi líka. Þar situr forrík og ótrúlega spillt yfirstétt, en undirstéttin er eins og í öðrum löndum á svæðinu fjölmenn, ung að árum og sér lítil tækifæri eða tilgang í lífinu.
Þetta hefur áhrif út um allan heim – eða hvað segið þið um bensínverð sem er stöðugt á uppleið og er þegar þetta er skrifað 223 krónur á lítrann.