Lögfræðingur sem kom í Kastljósið sagði að það væri siðaðra manna háttur að leysa mál fyrir dómstólum.
Nú hefði ég haldið að það væri einmitt þveröfugt – það væri siðaðra manna háttur að leysa mál með samningum og málamiðlunum.
Og þá á ég ekki sérstaklega við Icesave – það mál má vel fara fyrir dómstóla ef samningar takast ekki. Það væri enginn heimsendir. Kannski kominn tími til að menn andi djúpt andspænis þessu leiðinlega deilumáli.
En þetta er auðvitað misjafnt. Ég kem úr fjölskyldu þar sem fólk kemur aldrei inn í dómssali, ég held það eigi við um margar kynslóðir aftur í tímann. Hins vegar kem ég stundum á eyju í Grikklandi þar sem íbúarnir eru sífellt í málaferlum hver við annan út af smæstu hlutum. Hver veit – kannski er það betra en að fólkið fari að slást úti á götunum?
Í hinum engilsaxneska heimi er mikið kvartað undan því sem kallast culture of litigation. Það er þegar fólk finnur sig knúið til að fara í mál út af öllum sköpuðum hlutum. Í Bandaríkjunm er þetta náttúrlega þjóðaríþrótt, en sums staðar stendur það reyndar á gömlum merg eins og á Írlandi – löngum þóttu Írar þjóða fremstir í lagaflækjum.
Lögfræðingar eru auðvitað hæstánægðir í slíku ástandi og frá þeirra bæjardyrum er það sjálfsagt mjög siðað.