Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóri DV, skrifar leiðara í dag þar sem hann gerir heldur lítið úr fullyrðingum um skapandi greinar og því að Íslendingar séu skapandi þjóð – hann segir að þetta minni á loftið sem var í mönnum þegar þeir töluðu um fjármálageirann á tíma útrásarinnar.
Menn skyldu alltaf passa sig á þjóðrembunni, en samt er hægt að færa ansi góð rök fyrir því að Íslendingar séu skapandi. Útlendingar sem hingað koma nefna þetta gjarnan. Það eru ekki mörg þrjú hundruð þúsund manna mengi í heiminum sem halda úti jafnmikilli bóka- og blaðaútgáfu, iðka jafnmikla tónlist, hafa mörg leikhús, gera fjölda kvikmynda á hverju ári. Svona má lengi telja. Þetta gerum við á tungumáli sem er okkar eigið, sem ekkert annað fólk skilur, en á sér ansi merkilega bókmenntasögu sem spannar frá miðöldum, gegnum rómantíska tímann og módernismann og fram til okkar daga.
Það er kannski hægt að segja að í þessu séu engin raunveruleg verðmæti – og tefla fram á móti þessu sjávarútvegi sem skapar voða mikla peninga. Þá má reyndar nefna að sjávarútvegurinn hefur ráðið lögum og lofum á Íslandi nokkuð lengi. Gengi krónunnar hefur verið skráð eins og honum hentar og aðrar atvinnugreinar hafa þurft að beygja sig undir hann, stórútgerðarmenn hafa verið kjarninn í valdastétt landsins.
En staðreyndin er samt sú að án þessa væri lítið varið í að vera hérna. Þá væri Ísland í raun bara verstöð með álverksmiðjum á stangli. Ég segi fyrir sjálfan mig að ég myndi ekki nenna að hanga á svoleiðis stað.
Það er sagt að ekki hafi verið til nema átta hundruð þúsund Íslendingar í gervallri sögunni. Það er ekki mikill fjöldi. Þótt við kæmum öll saman, fólkið sem hefur verið til hérna frá landnámi, myndum við ekki einu sinni ná að fylla meðalstóra borg úti í heimi. Það er reyndar hvimleitt þegar talað er um menninguna sem „nýja stóriðju“, enda held ég að það geri ekki aðrir en frekar ómenningarlegt fólk – en menningin sem hefur verið haldið uppi hérna – má tala um menningarstigið? – hefur verið afar mikilvæg.
Lengi reyndi náttúran að drepa Íslendinga, henni tókst næstum að drepa þá alla. Á meðan var menningin eitt af því sem hélt lífi í þjóðinni. Þetta er reyndar stef sem gengur í gegnum íslenskar bókmenntir, Halldór Laxness notar það hvað eftir annað, og nú á síðustu tímum hafa þeir lagt út af þessum Pétur Gunnarsson í þríleiknum Skáldsögu Íslands og Jón Kalman Stefánsson í Himnaríki og helvíti og Harmi englanna.