Maður veltir fyrir sér eftir öll stóru orðin hvað ákæran sem var kokkuð upp á Alþingi gegn níumenningunum er óralangt frá dómsniðurstöðunni.
Þau voru beinlínis ákærð fyrir árás á Alþingi, þar var vísað í grein hegningarlaga þar sem er talað um að:
„Vekja eða stýra uppreisn í þeim tilgangi að breyta stjórnskipun ríkisins, fyrir að hafast eitthvað það að, sem miðar til þess að svipta forsetann lífi, fyrir hryðjuverk og fyrir að leitast við að aftra því, að fram fari kjör forseta, alþingiskosningar eða bæjar- eða sveitarstjórnakosningar. Ákvæði þessi hafa það að markmiði að vernda ríkjandi stjórnskipun, eins og hún er ákveðin í stjórnarskrá og öðrum stjórnskipunarlögum, og vernda jafnframt æðstu handhafa ríkisvaldsins. Er hámarksrefsing fyrir brot í þessum kafla laganna ákveðin ævilangt fangelsi.“
En í dómsniðurstöðunni segir að það sé:
„…engin vísbending í málinu um það að ákærðu hafi ætlað sér að aðhafast annað en að láta heyra í sér mótmæli vegna ástandsins í landinu frá þingpöllunum. Verður með engu móti talið að fyrir þeim hafi vakað að reyna að kúga Alþingi eða að athafnir þeirra geti talist vera sú árás á þingið að sjálfræði þess hafi verið hætta búin. Ber samkvæmt þessu að sýkna öll ákærðu af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga.“
Málatilbúnaðurinn er semsagt einstaklega klénn. Fimm eru sýknaðir, fjórir fá smávægilega dóma – sem margir þátttakendur í Búsáhaldabyltingunni hefðu sennilega verðskuldað miðað við þetta.
Í raun er þetta hið vandræðalegasta mál fyrir Alþingi og þingmenn sem höfðu uppi stór orð um þetta mál.