Frændi minn einn hefur starfað sem læknir í Afríku í tuttugu og sjö ár.
Hann er nú kominn á eftirlaun, býr í Noregi, en fór aftur til Afríku í fyrra og var þar í nokkra mánuði. Hann var um tíma eini læknirinn á milljón manna svæði.
Hann sagði á eitt sinn hefðu algengir sjúkdómar til dæmis verið malaría og lömunarveiki – en nú væri eyðnin langskæðust.
Hann sagði að peningar frá Bill Gates hefðu gert gagn, fyrir þá væri hægt að kaupa lyf. Vandi væri hins vegar að venja fólk á að taka lyfin.
Ég fór út í búð og sá forsíðu Time Magazine grein sem heitir 2045: Árið sem menn verða ódauðlegir. Þetta er reyndar nánast sama grein og birtist í Wired um síðustu aldamót og var þá meðal annars rædd í Silfri Egils.
En þá má líka spyrja hverjir verði ódauðlegir?
Líklega ríka fólkið – við stefnum inn í framtíð þar sem heilbrigðisþjónusta verður stöðugt tæknivæddari og dýrari.
Og þeir sem hafa ekki efni á henni mega éta það sem úti frýs – halda áfram að deyja úr sjúkdómum sem í raun ætti að vera einfalt að koma í veg fyrir eða að lækna.
En sú óheppni, mundi einhver segja?
Ja – fólkið hefur þá allavega Bill Gates.