Einn flötur á Icesave málinu er að mat forsetans á því hvort hann skrifar undir eða ekki er algjörlega huglægt.
Hann getur fært ágæt rök fyrir hvorri ákvörðuninni sem hann tekur.
Hann getur neitað að skrifa undir. Sagt að þjóðin skuli ákveða (það er varla hægt að tala um að hún eigi síðasta orðið því málið gæti haldið áfram) – að það sé eðlilegt framhald af synjun hans í janúar og þjóðaratkvæðagreiðslunni í mars. Hann getur líka sagt að samningnum fylgi enn of mikil áhætta. Hann getur vísað í undirskriftasöfnun sem nú stendur yfir og sagt að enn sé gjá milli þings og þjóðar. Svo gæti hann sagt að mikill vilji hafi verið á Alþingi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.
En hann getur líka fært ágæt rök fyrir því að skrifa undir:
Hann getur sagt eins og hann hefur gert að nýi samningurinn sé miklu betri en sá fyrri. Að með fyrri synjun og þjóðaratkvæðagreiðslu hafi þjóðin sparað stórfé. Hann getur sagt að lýðræðið hafi aldeilis virkað, fyrri ákvörðun sín hafi sannað gildi sitt. Hann getur vísað í að samningurinn hafi verið samþykktur með miklum meirihluta á Alþingi og að hann sé ekki nærri því eins umdeildur og síðasti samningurinn. Þótt tæpt hafi staðið um þjóðaratkvæðagreiðslu í þinginu hafi samningurinn sjálfur haft mikið fylgi. Það sé tímabært að ljúka málinu.
En þótt forsetinn geti rökstutt hvort tveggja er víst að ákvörðun hans, á hvorn veginn sem hún er, mun gera marga reiða.
Ákveði hann að skrifa ekki undir stöndum við hins vegar á merkilegum tímamótum. Þá má segja að synjunarákvæðið í stjórnarskránni sé orðið alveg bullandi virkt. Þá hefur skapast hefð fyrir því að beita málskotsréttinum grimmt.
Það getur verið í ýmsum málum – þarf í raun ekki meira til en að Alþingi sé ekki sammála og að nokkur hluti þjóðarinnar láti skína í vilja sinn. Í InDefence söfnunninni er sagt að um 56 þúsund manns hafi ritað nöfn sín, í núverandi söfnun er gefin upp talan 40 þúsund, í Magma undirskriftasöfnuninni var talan um 50 þúsund. Þetta eru á bilinu frá 13-18 prósent þjóðarinnar.
Í hvaða tilvikum á forsetinn þá að segja nei og í hvaða tilvikum á hann að segja já? Hvenær er gjá milli þings og þjóðar og hvenær er bara rifa?