Siggi stormur segir að í dag séu liðin 30 ár frá því sem hann kallar Engihjallafárviðrið.
Ansi er maður orðinn gamall.
Ég man vel eftir þessum degi.
Var staddur í húsi við Bergstaðastræti, fór út sirka átta um kvöldið og veðrið var alveg brjálað. Í ofanálag var fljúgandi hálka.
Kom auga á eldri konu sem var að reyna að komast yfir Bragagötuna, þar á horninu var eitt sinn söluturninn Síró (eða Ciro). Hún tókst á loft og fauk niður götuna í átt að Hljómskálagarðinum.
Ég fór á eftir, náði taki á konunni og tókst að drösla henni fyrir horn og heim til sín.
Þetta var svosem ekki mikið afrek en óveðrið gleymist ekki.
Ég held að Síró sé ekki lengur til. Einu sinni gerði ég sjónvarpsþátt um sjoppur og sjoppumenningu og var þá að velta fyrir mér hvers vegna sjoppan hefði heitið Síró – sjoppunöfn voru mjög fjölbreytt á árunum eftir stríð. Ég komst aldrei almennilega til botns í þessu.