Sjálfstæðismenn í þinginu greiða atkvæði með þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi Icesave.
Í raun er þetta stefnubreyting hjá flokknum. Hann hefur alltaf verið mótfallinn þjóðaratkvæðagreiðslum, í stjórnartíð hans hefur aldrei verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla.
Hver þingmaður flokksins á fætur öðrum stígur í pontu og segir að þetta mál sé svo sérstakt að það útheimti þjóðaratkvæði – orðalagið er að „sérstaða“ þess sé svo mikil – til dæmis er sagt að fyrst fyrra Icesave frumvarp fór í þjóðaratkvæði þá sé rétt að hið næsta sem kemur á eftir fari sömu leið.
En það er ekki endilega svo.
Þegar Ólafur Ragnar neitaði að samþykkja fjölmiðlalögin á sínum tíma var ekki einu sinni haldin þjóðaratkvæðagreiðsla eins og lög gerðu ráð fyrir. Það voru heldur ekki samin ný lög sem voru lögð fyrir þjóðina. Málið bara gufaði upp.
Er þá ekki líka kominn tími á þjóðaratkvæðagreiðslu um kvóta og auðlindir og ýmis fleiri mál? En vandinn er sá að það skortir lög og reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur, um það hefur aldrei verið nein sátt – það er tómarúm þarna eins og Bjarni Benediktsson segir. Þetta dinglar allt í lausu lofti og afstaða þingheims fer eingöngu eftir því hvaða mál á í hlut. Nú er stjórnin á móti og stjórnarandstaðan með. Í öðru máli gæti þetta snúist alveg við. Það er alveg óþarfi að gera of mikið úr prinsíppfestu þingmanna.
Bíðum allavega eftir kröfum um fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur – og hvernig þingið verður við þeim. Því auðvitað er „sérstaða“ þessa máls ekki slík að það eitt henti í þjóðaratkvæði en önnur mál ekki. Það er bara orðhengilsháttur.