Það er talað um að skera upp herör gegn ofbeldi í bænum.
En hluti af vandanum er mikið umburðarlyndi gagnvart ofbeldi í samfélaginu.
Menn sem beita ofbeldi fá mjög væga fangelsisdóma – þeim er hleypt út og þeir ganga lausir meðal okkar.
Þarna er til dæmis mikill munur á því hvernig er tekið á fíkniefnamálum. Fíkniefnadómar eru mjög harðir í þessu landi, það má réttlæta með því að fíkniefni valdi miklu tjóni – en hvað þá með ofbeldi og frelsissviptinguna sem fylgir því?
Ungur maður var í dag leiddur fyrir dómara fyrir að hafa valdið manni örkumlum á nýársnótt. Sagt er að ofbeldismaðurinn hafi stappað á höfði fórnarlambsins, með þeim afleiðingum að hann er hálf blindur á öðru auga, á erfitt með mál og fær mikil höfuðverkjaköst – það sé óvíst með batahorfur.
Ég fletti ofbeldismanninum upp á netinu og þá kom í ljós að 26. nóvember 2010 var hann dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir ýmis afbrot, meðal annars fyrir grófan ofbeldisverknað þar sem hann lokaði mann inni í skáp með 400 watta ljósaperu og snöru um hálsinn.