Sjónvarpið sýndi í gær fremur hallærislega mynd um hina ólánsömu drottningu Marie Antoinette. Myndin átti líklega að sýna innantómt líf yfirstéttar – en í raun var það myndin sjálf sem var innantóm.
Vinur minn sendi mér línu og minnti mig á að Marie Antoinette hefði verið gerð betri skil í samnefndu kvæði eftir Hannes Pétursson. Það birtist í Kvæðabók, einni frábærustu ljóðabók sem hefur komið út á íslensku, árið 1955. Það hljómar svo:
Sem úfið haf er þessi mikla þyrping
og þarna sést á vagninn eins og sker.
Hún stendur þögul, horfir yfir hópinn
en hæg og svöl
er morgungolan. Lengra burtu bíður
hin bitra öx í háu gálgatré
og sést yfir múginn.
Hún er þreytt og heyrir
öll hrópin sem úr óramiklum fjarska
buguð af hinni beisku fangadvöl.
Er von hún skilji að allur þessi æsti
óhreini lýður, þetta grimma vopn
sem blikar þarna blóðugt, óseðjandi
sem bölvað skrímsli, sáir dauða og kvöl
sé hvítur draumur hugsuðanna, framtíð
hollari, betri og eina völ
en hitt sem nú skal rifið upp með rótum:
hið rotna stjórnarfar og mikla böl
sé hún, sem yfir hópinn orðlaus starir
hrein og föl.