Það var talað um það á blaðamannafundi um Icesave undirskriftasöfnun í dag að „þjóðin þyrfti að koma að borðinu“.
Og það hefur verið talað um að þingið hafi orðið viðskila við þjóðina. Ólafur Ragnar Grímsson nefndi þetta í viðtali við mig í gær.
Þá er úr vöndu að ráða.
Við búum í fulltrúalýðræði og það er Alþingi sem setur lög. Ríkisstjórn situr í skjóli Alþingis.
Síðan íslenska lýðveldið var stofnað hefur einungis verið haldin ein atkvæðagreiðsla þar sem þjóðin er spurð álits.
Við erum heldur ekkert mikið nær því að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum – eins og stendur eru þær háðar því að forseti neiti að staðfesta lög.
Undirskiftum er safnað gegn Icesave í gríð og erg – takmarkið er að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar virðist ekki vera neinn hljómgrunnur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Magma málið, jafnvel þótt safnað hafi verið á sjötta tug þúsunda undirskrifta vegna þess.
Það hlýtur að blasa við að finna þurfi farveg þegar þjóðarviljinn er svona andstæður þinginu hvað eftir annað – það virðist líka vera tilfellið hvað varðar fiskveiðistjórnunarkerfið.
Samt heyrir maður sömu menn og vilja að „þjóðin komi að borðinu“ vera algjörlega andsnúna stjórnlagaþingi.
En er endurskoðun stjórnarskrárinnar ekki lykillinn að því að þjóðin geti í framtíðinni haft meiri áhrif í umdeildum málum?
Ólafur Ragnar sjálfur benti á það í viðtalinu í gær að það þyrftu að vera fleiri leiðir til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur en fyrir tilverknað forsetans.