Í Kiljunni í kvöld fjöllum við um nýútkomna bók eftir Ólaf Jóhann Ólafsson sem nefnist Málverkið. Bókin gerist á Ítalíu í lok síðari heimstyrjaldarinnar og segir frá flækjum kringum málverk sem hugsanlega er eftir hinn fræga málara Caravaggio. Ólafur Jóhann er í viðtali í þættinum frá New York.
Steinunn Sigurðardóttir segir frá skáldsögu sinni Jójó, en einnig frá ljóðahátíð sem haldin var í Kína fyrir stuttu á vegum hins margumtalaða Huangs Nobu.
Við lítum inn í bókabúð Máls & menningar við Laugaveg í tilefni af því að fimmtíu ár eru síðan rekstur bókaverslunar hófst í húsinu. Þar koma ýmsir við sögu, Anna Einarsdóttir, Ester Benediktsdóttir, Sigfús Daðason, Jóhannes úr Kötlum, Kristinn E. Andrésson og bróðir hans Einar.
Páll Baldvin og Kolbrún fjalla um þrjár spennusögur: Einvígið eftir Arnald Indriðason, Lygarann eftir Óttar M. Norðfjörð og Ómynd eftir Eyrúnu Ýri Tryggvadóttur.
En Bragi sýnir okkur gleraugu Torfhildar Hólm.