fbpx
Mánudagur 15.september 2025
Eyjan

Ingi Freyr: Kaupþingsþversögnin

Egill Helgason
Miðvikudaginn 9. nóvember 2011 16:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV birtir merkilega samantekt í dag eftir stjörnublaðamanninn Inga Frey Vilhjálmsson. Hún fjallar um kúlulánaliðið, þá sem fengu lánaðar stórar fjárhæðir til hlutabréfakaupa í Arion-banka, fengu arð af hlutabréfunum sem þeir halda eftir, en þurfa ekki að greiða lánin sem þeir fengu.

Ingi fjallar síðan um málið í leiðara sem hann skrifar sjálfur. Ég ætla að leyfa mér að birta hann í heild sinni:

„Ýmislegt sem fram hefur komið um íslenska efnahagshrunið árið 2008 er fáránlegt og nánast óskiljanlegt, gjörningar sem virðast stríða gegn heilbrigðri skynsemi.

Þannig voru kaup katarska sjeiksins Al-Thanis á hlutabréfum í Kaupþingi í september 2008 nánast súrrealísk, bæði þegar þau áttu sér stað og eins þegar litið er til baka: Allt í einu dúkkaði upp sjeik frá framandi landi sem vildi fjárfesta í íslenskum banka fyrir tugi milljarða króna. 20 milljarða króna viðskipti huldufélagsins Stíms með hlutabréf í Glitni og FL Group döðruðu sömuleiðis við fáránleikann þegar upp komst um þau eftir hrunið 2008 og allir þátttakendur í fléttunni rembdust við að sverja félagið af sér. Og flækjurnar í uppbyggingu ýmissa eignarhaldsfélaga eins og Milestone og félaga Björgólfs Thors Björgólfssonar virðast hafa verið hannaðar sem táknmyndir ógagnsæis og leynimakks sem endaði á bak við luktar dyr skattaskjóla í Suðurhöfum.

Annað dæmi úr hruninu sem dansar á mörkum hins fáránlega eru viðskipti starfsmanna Kaupþings með hlutabréf í bankanum. Meira en 80 starfsmenn fengu lán frá bankanum upp á samtals tugi milljarða króna til að kaupa hlutabréf í honum. Starfsmennirnir fengu arð af bréfunum sem samtals nam milljörðum í góðærinu fyrir hrun þegar Kaupþingi vegnaði vel og hlutabréfaverð í bankanum hækkaði og hækkaði. Þegar fyrir lá að Kaupþing væri komið að fótum fram haustið 2008 ákváðu stjórnendur bankans að rifta persónulegum ábyrgðum starfsmannanna á hlutabréfalánunum sem arðgreiðslurnar til þeirra byggðu á. Starfsmennirnir áttu ekki að þurfa að borga neitt fyrir lánin sem þeir höfðu hagnast verulega á um nokkurra ára skeið.

Slitastjórn Kaupþings hefur stefnt mörgum af starfsmönnunum vegna þessara lána og vill að þau verði greidd til baka, að hluta eða öllu leyti. Í einhverjum tilfellum getur slitastjórnin hins vegar ekki sótt á lántakendurna út af tæknilegum, lögfræðilegum atriðum. Þetta á til dæmis við um þá Kristján Arason og Hreiðar Má Sigurðsson. Slitastjórnin getur heldur ekki sótt arðgreiðslurnar til baka frá þessum tilteknu starfsmönnum eða neinum öðrum, ekki heldur þeim sem þeir geta sótt á til að endurgreiða lánin sjálf. Starfsmenn Kaupþings halda því arðgreiðslum af hlutabréfum sem þeir annaðhvort greiddu ekki fyrir á sínum tíma, en þurfa á endanum að greiða fyrir, eða sem þeir greiða bara alls ekkert fyrir. Arðurinn er einkavæddur en lánin sem hann byggði á eru það ekki í einhverjum tilfellum og þrotabú Kaupþings þarf að bera tapið.

Við þessu er ekkert hægt að gera vegna þess að engin stoð er fyrir því í lögum að hægt sé að sækja arðgreiðslurnar til þessa fólks. Íslensk lög virðast ekki hafa gert ráð fyrir bankahruni og hinum einkennilegu afleiðingum þess – skiljanlega kannski. Einn viðmælenda DV orðar skoðun sína á þessu máli með eftirfarandi hætti í blaðinu í dag: „Þessir menn neita að borga lánin sín, sem þeir tóku til að kaupa hlutabréf. En þeir hafa hirt arðinn af þessum bréfum. Og svo telja þeir sig ekki þurfa að borga lánin. Það er fáránleiki málsins.“

Þeir starfsmenn Kaupþings sem sleppa við að greiða skuldir sínar vegna hlutabréfakaupanna sitja því áfram á öllum arðgreiðslunum sem þeir fengu af hlutabréfum sem þeir greiddu ekki fyrir. Þessi staða virðist þversagnakennd – hvernig getur einhver fengið og haldið arði af einhverju sem hann greiddi ekki fyrir? Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og einnig öllum lögmálum um viðskipti og markaði. Samt er þetta staðreynd sem lög ná ekki yfir. Við getum kallað þetta Kaupþings-þversögnina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón vill breyta þessu við hátíðleg tækifæri – „Þurfum við ekki að taka höndum saman“

Jón vill breyta þessu við hátíðleg tækifæri – „Þurfum við ekki að taka höndum saman“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Forpokaðir fordómagrísir haldnir forréttindablindu ráðast gegn minnihlutahóp

Orðið á götunni: Forpokaðir fordómagrísir haldnir forréttindablindu ráðast gegn minnihlutahóp
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur hefur mistekist hrapallega á húsnæðismarkaði

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur hefur mistekist hrapallega á húsnæðismarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk