Hér kemur fram að minnsta álverið á Íslandi noti helmingi meiri raforku en öll heimili í landinu og öll fyrirtæki (utan álver) samanlagt.
Það er ansi mikið.
En hvernig er þessi orka að nýtast okkur?
Í nýlegri skýrslu um rekstur og arðsemi Landsvirkjunar eru settar fram miklar efasemdir um efnahagslegan ávinning af stóriðjunni, áhrifin hafa aðallega verið á framkvæmdatímanum. Þar stendur meðal annars:
,,Enn sem komið er hafa Íslendingar ekki náð að skapa raunverulega rentu af sinni auðlind.“
,,Þetta sýnir vel að þrátt fyrir stærð fyrirtækjanna sjálfra eru rekstraráhrif stóriðju á innlent hagkerfi fremur takmörkuð ef orkusalan er undanskilin, eða sem nemur um 0,2% að meðaltali á ári til hækkunar á hagvexti til ársins 2035.“
,,Ein og sér leggur framleiðsla málma, þ.e. stóriðjan, aðeins um 1,7% til landsframleiðslunnar við núverandi aðstæður, sem endurspeglar fyrst og fremst þá staðreynd að innlend framleiðsluþáttanotkun þessara fyrirtækja fyrir utan raforku er mjög takmörkuð.“
,,Og þar sem sú stefna hefur lengi verið ríkjandi hérlendis að selja raforku mjög nærri kostnaðarverði, sem m.a. endurspeglast í sögulegri lágri arðsemi Landsvirkjunar. … Séu þessar náttúruauðlindir raunverulegar auðlindir fyrir landið ætti það að endurspeglast í hárri arðsemi fyrirtækisins og arðgreiðslum. Ef arðsemin er í lægri kanti þess sem þekkist í almennum atvinnurekstri bendir það til þess að auðlindarenta sé annað hvort ekki til staðar eða renni til orkukaupans með lágu orkuverði.“