Sagnfræðingurinn Misha Glenny skrifar í Financial Times um það sem hann nefnir hinn raunverulega gríska harmleik.
Það eru ólígarkarnir í Grikklandi, auðmenn sem stjórna viðskipta- og atvinnulífinu.
Glenny segir að þeir hafi brugðist við kreppunni með tvennum hætti, annars vegar með því að flytja peninga úr landi (á fasteignamarkaði í Lundúnum hefur orðið vart við aukið flæði peninga frá Grikklandi) og hins vegar með því að grafa undan Papandreou forsætisráðherra.
Glenny segir að Papandreou sé sá grískur stjórnmálamaður sem hafi einna helst staðið uppi í hárinu á auðræðinu. Auðmennirnir eiga fjölmiðla sem þeir beita miskunnarlaust gegn honum.
Svo segir Glenny – sem er höfundur mikillar bókar um sögu Balkanskaga – að olígarkarnir bíði þess að kaupa grískar ríkiseignir á brunaútsölu.
Hann nefnir einnig að Evrópusambandið hafi verið alltof lint gagnvart útbreiddri spillingu í Grikklandi og á Ítalíu. Það hafi til dæmis liðið algjör yfirráð Berlusconis á ítölsku sjónvarpi og hinn skelfilega klíkuskap sem einkennir grískt atvinnulíf.